0

Er okkur orðið alveg sama um Fedor Emelianenko?

Mynd: Esther Lin/STRIKEFORCE

Annað kvöld berst Fedor Emelianenko sinn fyrsta bardaga í Bellator. Þetta verða 12. bardagasamtökin sem Fedor berst fyrir en aldrei hefur hann barist í UFC og aldrei mun hann berjast í UFC.

Aldrei að segja aldrei og allt það en það er orðið afskaplega ólíklegt að Fedor Emelianenko muni nokkurn tímann stíga fæti í UFC búrið. Hinn fertugi Fedor mætir Matt Mitrione á Bellator 172 en þetta verður fyrsti bardagi Fedor í Bandaríkjunum síðan 2011.

UFC var árum saman í eltingarleik við besta þungavigtarmann allra tíma. Fimm sinnum á Fedor að hafa verið í samningaviðræðum við UFC en alltaf hafnað þeim fyrir önnur bardagasamtök. Affliction, M-1, Strikeforce, Rizin FF og Bellator voru meðal þeirra sem Fedor valdi umfram UFC. Karim Zidan hjá Bleacher Report fór ítarlega yfir samningaviðræður UFC og Fedor í gegnum árin.

Í sumar sagðist hann enn einu sinni vera afar nálægt því að semja við UFC en skyndilega var hann kominn í Bellator. Fedor virtist aldrei passa við UFC og hafði lítin áhuga á að berjast þar, sérstaklega þegar forseti bardagasamtakanna, Dana White, hefur margoft drullað yfir Fedor í fjölmiðlum. Samningarnir í UFC eru einhliða og í föstum skorðum sem var nokkuð sem Fedor var aldrei spenntur fyrir.

En Fedor hefur sennilega nýtt sér þessi tilboð frá UFC til að hækka boð frá öðrum bardagasamtökum. Í hvert sinn sem Fedor var sagður vera í viðræðum við UFC hefur hann notað það til að fá hærra boð frá öðrum bardagasamtökum og það virkaði.

Eftir þrjú töp í röð í Strikeforce snéri Fedor aftur til Rússlands þar sem hann sigraði Jeff Monson þann 20. nóvember 2011. Fedor fylgdi sigrinum eftir með tveimur sigrum í viðbót áður en hann ákvað að hætta árið 2012. Líkt og svo margir bardagamenn vildi hann halda áfram og snéri aftur árið 2015 og hefur síðan þá unnið tvo bardaga í röð. Þess má til gamans geta að Jeff Monson hefur barist 31 bardaga síðan hann barðist við Fedor árið 2011.

Fedor eftir bardagann gegn Fabio Maldonado.

Áhuginn á Fedor er núna í sögulegu lágmarki. Ástæðan er einföld, hann leit illa út síðast þegar hann barðist. Þann 17. júní 2016 mætti Fedor hinum brasilíska Fabio Maldonado. Maldonado var ekkert nema miðlungs bardagamaður í léttþungavigt UFC þegar hann var upp á sitt besta en tókst samt að valda Fedor töluverðum vandræðum. Sá bardagi sýndi að líklegast á Fedor ekkert heima í UFC í dag.

Fedor virkaði hægur og daufur í bardaganum og var kýldur niður í 1. lotu. Bardaginn hefði hæglega getað verið stöðvaður í 1. lotu en einhvern veginn tókst Fedor að lifa af og vann eftir umdeilda dómaraákvörðun í heimalandinu, 29-28. Fedor átti í miklum vandræðum með hinn 36 ára Maldonado sem hafði tapað þremur af síðustu fjórum bardögum sínum þegar hann var látinn fara úr UFC ári áður. Það er því engin tilviljun að áhuginn á Fedor sé í sögulegu lágmarki.

Annað kvöld mætir hann öðrum fyrrum miðlungs bardagamanni úr UFC, Matt Mitrione, og er Mitrione sigurstranglegri að mati veðbanka. Veðbankarnir hafa ekki alltaf rétt fyrir sér þegar kemur að goðsögnum sem mæta aðeins yngri andstæðingum. Síðustu helgi sáum við Anderson Silva vinna Derek Brunson en sá síðarnefndi hafði verið sigurstranglegri hjá veðbönkum. Það er því aldrei að vita nema hinn fertugi Fedor geti þetta enn og vinni eftir kannski umdeilda dómaraákvörðun líkt og Anderson Silva.

Áhuginn á Fedor er kannski í sögulegu lágmarki núna en MMA aðdáendur vilja samt vita hvort hann vinni eða tapi. Hann er dálítið í dag eins og fjarskyldur ættingi sem er stöðugt að taka mikla áhættu og lifir hátt. Við þekktum hann einu sinni mjög vel og viljum bara vita að hann sé í lagi og slasi sig ekki. Við viljum vita hvort Fedor sé í lagi eða ekki, okkur er ekki alveg sama um hann ennþá.

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is

-Æft bardagaíþróttir í 6 ár (fjólublátt belti í BJJ)
-BS í sálfræði
-Lýsi UFC á Stöð 2 Sport
-MMA fíkill
Pétur Marinó Jónsson

Comments

comments

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í 6 ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.