Einn besti bardagamaður allra tíma, Fedor Emelianenko, mun snúa aftur í MMA á gamlárskvöld í Japan. Andstæðingur hans er með aðeins einn bardaga að baki í MMA.
Þessi nýju bardagasamtök sem Fedor Emelianenko mun berjast í hafa ekki enn fengið nafn. Ónefndu samtökin munu þó halda blaðamannafund á fimmtudaginn þar sem talið er að þau munu tilkynna nafn sitt, andstæðing Fedor Emelianenko og fleira.
Samkvæmt heimildum MMA Fighting mun Emelianenko mæta kínverska Indverjanum Singh Jaideep. Jaideep er aðeins með einn MMA bardaga en á að baki langan feril í sparkboxi. Í sparkboxi hefur hann sigrað 40 bardaga og tapað tíu en hann hefur ekki sigrað í sparkboxi síðan árið 2011. Í hans eina MMA bardaga sigraði hann Alireza Tavak í júní 2013.
Emelianenko hefur ákveðið að snúa aftur í MMA eftir að hafa hætt árið 2012. Búist var við að Emelianenko myndi semja loksins við UFC en ákvað þess í stað að semja við nýju japönsku bardagasamtökin. Forseti samtakanna er Nobuyuki Sakakibara en hann var forseti Pride bardagsamtakanna.
Það verður spennandi að sjá hvernig samtökin munu líta út en talið er að þau munu heita Samurai FC. Þessi nýju samtök ætla að halda þrjú bardagakvöld í lok desember, þann 29. desember, 30. desember og 31. desember. Fedor Emelianenko berst þann 31. desember og þá munu þeir Shinya Aoki og Kazushi Sakuraba mætast í aðalbardaganum 29. desember. Þá er talið líklegt að Gabi Garcia munu berjast sinn fyrsta MMA bardaga á einu af þessum kvöldum. Allir viðburðirnir munu fara fram í Saitama Super Arena í Japan.
Bardagasamtökin stefna á að halda aðeins tvö til þrjú stór bardagakvöld á ári sem gætu einnig innihaldið sparkbox bardaga og glímur. Þetta mun væntanlega allt vera nánar kynnt á blaðamannafundinum á fimmtudaginn.