spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaFöstudagstopplistinn: 15 stærstu boxbardagar allra tíma

Föstudagstopplistinn: 15 stærstu boxbardagar allra tíma

Á morgun er komið það því sem aðdáendur hnefaleika hafa beðið eftir í rúm fimm ár. Manny Pacquiao og Floyd Mayweather ætla loksins að berjast í einum stærsta bardaga sögunnar. Í tilefni af því ætlum við að líta yfir 15 stærstu bardaga allra tíma og hvort þeir stóðu undir væntingum.

Áður en lengra er haldið er mikilvægt að skilgreina hvað átt er við með stórum bardaga. Hér er ekki átt við bestu bardagana heldur þá bardaga sem mesta spennan var fyrir. Ekki er verið að horfa á krónutölur í þessu samhengi heldur fyrst og fremst eftirvæntingu almennings. Eftirvæntingu er erfitt að mæla svo listinn verður alltaf ónákvæm vísindi. Saga hnefaleikanna er annars löng svo listinn varð sjálfkrafa í lengra lagi.

hamed barrera

15. Naseem Hamed gegn Marco Antonio Barrera (2001)

Sumir elskuðu hann, sumir hötuðu hann en allir vildu sjá „Prince“ Naseem Hamed berjst. Prinsinn var ósigraður eftir átta ára feril þegar honum var still upp á móti einum harðasta nagla sem sögur fara af, „The Baby-Faced Assassin“, Marco Antonio Barrera. Hvernig ætlaði Prinsinn að bregðast við?

Stóð bardaginn undir væntingum?

Já, en fáir bjuggust við að hann yrði einhliða. Barrera var með fullkomna bardagaáætlun. Hann notaði vel tímasetta stungu og hreyfanleika til að útboxa Prinsinn og refsa fyrir hver mistök. Bardaginn var meistaraverk Barrera, sem sigraði með yfirburðum á stigum, en Prinsinn náði sér aldrei eftir tapið.

Hagler_vs_Hearns

14. Marvin Hagler gegn Thomas Hearns (1985)

Ray Leonard, Roberto Duran og Thomas Hearns höfðu allir barist við hvorn annan í veltivigt og súperveltivigt. Þegar Marvin Hagler fór að blanda sér í leikinn var ljóst að útkoman yrði flugeldasýning. FyrstuR var Roberto Duran sem tapaði á stigum fyrir Marvin Hagler árið 1983. Næstur var „The Hitman“ Thomas Hearns og áhorfendur vissu að eitthvað rosalegt væri í uppsiglingu.

Stóð bardaginn undir væntingum?

Heldur betur. Bardaginn er talinn einn besti bardagi allra tíma. Hann var stuttur en Hagler og Hearns slógust eins og hundur og köttur þar til Hearns lág í valnum í þriðju lotu.

Tyson_Lewis

13. Mike Tyson gegn Lennox Lewis (2002)

Lennox Lewis hafði sigrað flesta sem skiptu einhverju máli á ferli hans, með örfáum undantekningum. Riddick Bowe vildi ekki berjast við hann, Klitschko bræður voru eitthvað erfiðir og Mike Tyson var búinn að vera. Samt var það bardagi gegn Mike Tyson sem Lennox Lewis þráði og það varð að veruleika í júní árið 2002.

Stóð bardaginn undir væntingum?

Nei. Eins og búast mátti við hafði Lennox Lewis mikla yfirburði. Mike Tyson var laminn illa í átta og hálfa lotu þar til hann átti ekkert eftir.

jack-dempsey-vs-gene-tunney

12. Jack Dempsey gegn Gene Tunney II (1927)

Jack Dempsey er einn heitt elskaðasti meistari sögunnar. Hann var mjög sigursæll en tapaði titlinum sínum árið 1926 fyrir Gene Tunney. Í tilraun til að endurheimta titilinn börðust þeir aftur fyrir framan 150.000 áhorfendur í Chicago. Landið svo gott sem lamað á meðan bardaginn fór fram og sló hann öll þáverandi tekjumet.

Stóð bardaginn undir væntingum?

Já. Bardaginn var mjög dramatískur og er frægur fyrir atvik í sjöundu lotu þegar Jack Dempsey sló Gene Tunney niður og honum var gefinn óeðlilega langur tími til að standa upp. Atvikið er þekkt sem „The Long Count“. Gene Tunney fékk að jafna sig og sigraði á stigum eftir tíu lotur.

The_Dream_Match

11. Manny Pacquiao gegn Oscar De La Hoya (2008)

Manny Pacquiao byrjaði sinn feril í fluguvigt (112 pund) og barðist í léttvigt (135 pund) í júní árið 2008. Það þótti því óðs manns æði fyrir „Pac Man“ að skora á hinn miklu stærri Oscar De La Hoya í veltivigt (147 pund). Bardaginn var samt of stór og of miklir peningar í húfi til að gera það ekki, en margir höfðu áhyggjur af Manny Pacquiao.

Stóð bardaginn undir væntingum?

Varla. Flestir bjuggust við erfiðum bardaga en Manny Pacquiao lúbarði Oscar De La Hoya sem gafst upp í byrjun 8. lotu. Bardaginn gerði Manny Pacquiao að enn stærri stjörnu.

rocky-marciano

10. Rocky Marciano gegn Joe Walcott (1952)

Eftir þríleik gegn Ezzard Charles var „Jersey“ Joe Walcott meistarinn í þungavigt. Á hraðri uppleið var hins vegar ítalsk ættaði bolinn Rocky Marciano sem hafði meðal annars sigrað Joe Louis á rothöggi ári áður. Walcott var tæknilegur snillingur en Marciano árásargjarn og höggþungur. Hvor myndi vinna, nautið eða nautabaninn?

Stóð bardaginn undir væntingum?

Ó já. Bardaginn leit illa út fyrir Rocky Marciano sem var sleginn niður í fyrstu lotu og var að tapa á stigum. Í 13. lotu kom hins vegar Suzie Q þruma Rocky Marciano sem skall á kinn Joe Walcott og gerði út af við bardagann. Höggið varð eitt frægasta rothögg sögunnar.

whitakerchavez

9. Pernell Whitaker gegn Julio Cesar Chavez (1993)

Mexíkanska goðsögnin Julio Cesar Chavez hafði farið hamförum í léttveltivigt, sigraði meðal annars Meldrick Taylor og Hector Camacho og var enn ósigraður eftir 87 viðureignir. Árið 1993 var hann efstur á öllum pund fyrir pund listum og tók þá ákvörðun að þyngja sig upp í veltivigt og skora á hinn magnaða Pernell „Sweet Pea“ Whitaker sem hafði verið ósnertanlegur allan sinn feril (tap á móti Jose Luis Ramirez var rán).

Stóð bardaginn undir væntingum?

Já, bardaginn var skemmtilegur en nokkuð einhliða. Pernell Whitaker útboxaði Julio Cesar Chavez en niðurstaðan varð því miður dómarahneyksli. Eftir mikinn vandræðagang var bardaginn úrskurðaður jafntefli en allir vissu hver vann í raun.

8. Ray Leonard gegn Marvin Hagler (1987)

Árið 1987 hafði „Sugar“ Ray Leonard ekki barist í þrjú ár. Eina tapið á ferlinum hans var tap á stigum gegn Roberto Duran sem hann hefndi fyrir sama ár. Leonard hafði verið meistarinn í veltivigt en fékk þá flugu í kollinn að skora á ríkjandi meistara í millivigt, sjálfan „Marvelous“ Marvin Hagler. Á þessum tíma var Hagler 33 ára og hafði ekki tapað í 11 ár.

Stóð bardaginn undir væntingum?

Já, bardaginn var mjög jafn en skiptar skoðanir eru um hver vann. Ray Leonard var mjög hreyfanlegur og hélt sér frá Marvin Hagler sem pressaði allan tímann. Enginn var sleginn niður eða meiddist illa. Á endanum gáfu dómararnir Leonard sigurinn en Hagler barðist aldrei aftur.

The_Rumble_in_the_Jungle_poster

7. Muhammad Ali gegn George Foreman (1974)

Muhammad Ali var viðurkenndur sem stórkostlegur boxari en árið 1974 mætti hann skrímsli. George Foreman var ekki venjulegur boxari. Hann var nær því að vera tröll með yfirnáttúrulega höggþyngd og mikið drápseðli. Hann hafði rotað bæði Joe Frazier og Ken Norton í tveimur lotum, eitthvað sem Ali komst aldrei nálægt að gera. Þegar þessi tveir ólíku hnefaleikamenn áttu að mætast í Afríku stóð heimurinn á öndinni. Bardaginn er þekktur sem The Rumble in the Jungle.

Stóð bardaginn undir væntingum?

Algjörlega, þó ekki eins og fólk átti von á. Bardaginn virtist mjög einhliða George Foreman í vil. Muhammad Ali hékk í köðlunum og leyfði skrímslinu að lemja sig. Eftir sjö lotur var George Foreman örmagna og Muhammad Ali kláraði hann með fallegri fléttu í áttundu lotu. Bardagaaðferð þessi var kölluð rope-a-dope eftir þetta.

jackjohnson

6. Jack Johnson gegn James Jeffries (1910)

Jack Johnson var umdeildur karakter. Á tíma mikils kynþáttahaturs lamdi hann hvíta karlmenn sundur og saman og skammaðist sín ekkert fyrir það. Menn þráðu svo heitt að sjá hann tapa að James Jeffries, sem hafði hætt að berjast sex árum áður, var plataður til að skella sér í form og berjast við svarta manninn fyrir mikla peninga. Svo mikil var spennan að byssur voru sérstaklega bannaðar á svæðinu sem og áfengi. Bardaginn fékk viðurnefnið The Fight of the Century.

Stóð bardaginn undir væntingum?

Ekki fyrir áhorfendur sem flestir voru hvítir. Jack Johnson hafði yfirhöndina allan tímann og bardaginn var stöðvaður í 15. lotu til að forða James Jeffries frá niðurlægjandi rothöggi.

leonard duran

5. Ray Leonard gegn Roberto Duran II (1980)

Ray Leonard var Oscar De La Hoya síns tíma. Hann vann gull á ólympíuleikunum og hafði bæði hæfileika og útlitið. Ósigraður og 24 ára gamall mætti hann þreskivélinni Roberto Duran frá Panama sem færði honum hans fyrsta tap á ferlinum. Þeir urðu að berjast aftur sem varð raunin um fimm mánuðum síðar.

Stóð bardaginn undir væntingum?

Nei, í raun ekki. Ray Leonard skipti alveg um bardagaáætlun frá fyrri bardaganum. Hann hélt Duran frá sér með stungu og miklum hreyfanleika og útboxaði „Hands of Stone“. Í áttundu lotu var Duran orðinn pirraður og hætti með ódauðlegum orðum, „no mas“.

louis schmelling

4. Joe Louis gegn Max Schmeling II (1938)

Þjóðverjinn Max Schmeling var fyrstur til að sigra Joe Louis árið 1936 í bardaga sem var valinn bardagi ársins af Ring Magazine. Tveimur árum síðar var nasistahreyfing Hitler í hámarki og annar bardagi Max Schmeling og „The Brown Bomber“ átti að sýna fram á yfirburði hvíta mannsins. Það var því miklu meira í húfi en titill og heimurinn fylgdist agndofa með.

Stóð bardaginn undir væntingum?

Ekki ef þú varst Þjóðverji. Joe Louis afgreiddi Max Schmeling í fyrstu lotu með hrottalegu rothöggi.

Floyd_Mayweather_Jr_vs._Oscar_De_La_Hoya_poster

3. Floyd Mayweather gegn Oscar De La Hoya (2007)

„The Golden Boy“ Oscar De La Hoya hafði árum saman verið stærsta stjarna hnefaleikanna. Árið 2007 hélt hann WBC beltinu í súperveltivigt eftir að hafa niðurlægt Ricardo Mayorga. Á sama tíma hafði Floyd Mayweather afgreitt alla þá helstu í veltivigt þegar hann skoraði á Gulldrenginn í þyngdarflokknum fyrir ofan. Oscar De La Hoya var kominn yfir sitt besta en bardaginn þótti nokkuð jafn á pappírum vegna mikils þyngdarmuns. Bardaginn sló öll met hvað tekjur varðar og var beðið með mikilli eftirvæntingu.

Stóð bardaginn undir væntingum?

Já. Bardaginn var mjög jafn. Oscar De La Hoya nýtti sér stærð sína og náði inn þungum höggum en Floyd Mayweather var nákvæmari og meiddi andstæðing sinn með gagnhöggum. Að lokum var það Floyd Mayweather sem sigraði eftir klofinn úrskurð dómaranna.

ali-frazier

2. Muhammad Ali gegn Joe Frazier (1971)

Á árunum 1960 til 1967 hafði Muhammad Ali (þá Cassius Clay) valtað yfir þungavigtina og safnað að sér öllum helstu titlum. Á árunum 1967 til 1970 var hann hins vegar í banni frá hnefaleikum þar sem hann neitaði að taka þátt í Víetnam stríðinu. Þegar hann snéri aftur hafði nýr ofurhugi, „Smokin“ Joe Frazier, haslað sér völl og tekið titlana sem teknir voru af Ali fjórum árum áður. Báðir menn voru ósigraðir og allir vildu vita hvor væri betri.

Líkt og bardagi Jack Johnson gegn James Jeffries var bardaginn kallaður The Fight of the Century.

Ali og Frazier börðust tvisvar í viðbót í frábærum bardögum. Mikil eftirvænting var einnig fyrir hina tvo, sérstaklega þann síðasta sem er þekktur sem The Thrilla in Manilla.

Stóð bardaginn undir væntingum?

Heldur betur. Bardaginn var jafn og spennandi. Ali vann mikið af fyrstu lotunum en Frazier hélt uppi mikilli pressu. Þegar Ali fór að þreytast fóru högg Frazier að lenda betur og betur. Í 15. lotunni var Ali sleginn niður með rosalegum vinstri krók sem kjálkabraut hann. Ali þraukaði út lotuna en tapaði á stigum.

sound and fury

1. Mike Tyson gegn Evander Holyfield II (1997)

Mike Tyson og Evander Holyfield börðust fyrst í nóvember árið 1996 eftir að margar fyrri tilraunir til að setja bardagann saman höfðu mistekist. Mike Tyson þótti miklu sigurstranglegri en Evander Holyfield kom öllum á óvart og gjörsigraði „Iron Mike“. Hann beitti tuddabrögðum, skallaði og pirraði Tyson sem varð fyrir vikið villtur og gerði mistök. Bardaginn var stöðvaður af dómaranum í elleftu lotu sem lagði grunninn að stærsta bardaga allra tíma um hálfi ári síðar.

Stóð bardaginn undir væntingum?

Sem bardagi, nei. Sem viðburður, já. Mike Tyson var eins og andsetinn maður og þegar Evander Holyfield byrjaði að nota höfuðið og ýta við honum missti hann stjórn á sér. Eyrnabitið fræga er eitt eftirminnilegasta atvik í sögu hnefaleikanna.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

3 COMMENTS

  1. þetta er allt gott og blessað hinsvega Ali gegn George Foreman er sennilega stæðstur allar fram að deiginum í dag þetta var fyrir tíma netsins hann var síndur í kvikmyndahúsum um allan heim öll heimsbigðin fylgist með forsetar konungar tjáðu sig það er talað um að öll afríka hafi fylgst með sem og Asía engin íþrótaviðburður hafði fram til þessa fengið þessar heimsálfur til að skjálfa líkt og þá.Takk fyrir þetta.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular