spot_img
Tuesday, November 12, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaFöstudagstopplistinn: 5 næst bestu bardagamennirnir

Föstudagstopplistinn: 5 næst bestu bardagamennirnir

Hversu leiðinlegt ætli það sé að vera óumdeilanlega næst bestur í þínum þyngdarflokki? Til eru nokkur dæmi um bardagamenn í UFC sem sigra alla andstæðinga sína nema meistarann. Þeir eru fastir í 2. sæti í þyngdarflokknum og fá ekki annað tækifæri gegn meistaranum. Það getur verið vegna þess að þeir hafa þegar tapað tvisvar fyrir meistaranum, töpuðu illa gegn meistaranum eða eru hreinlega ekki nógu skemmtilegir bardagamenn til að fá annað tækifæri. Lítum á topp 5 bardagamenn sem eru/voru næst bestir í sínum þyngdarflokki en áttu ekki séns í meistarann.

5. Ben Henderson: Kannski erfitt að setja hann í þennan flokk þar sem hann hefur bara barist einu sinni síðan hann tapaði titilinum til Anthony Pettis. Á meðan Pettis er meistari fær Henderson aldrei titilbardaga. Tvö töp gegn Pettis setur Henderson í erfiða stöðu, sérstaklega í ljósi þess að seinna tapið var hálfgert burst af hálfu Pettis. Hann sigraði Josh Thomson eftir umdeilda dómaraákvörðun í janúar og hefði Thomson fengið titilbardaga hefði hann sigrað bardagann á meðan Henderson fær ekki titilbardaga. Auk þess að vera með tvö töp gegn núverandi meistara hefur Henderson þótt full óspennandi eftir að hann kom í UFC og ekki klárað bardaga síðan í apríl 2010! Virðist  geta sigrað alla léttvigtarmenn heims (sennilega eftir umdeilda dómaraákvörðun) nema Anthony Pettis.

4. Yushin Okami: Þótti aldrei spennandi bardagamaður á sínum tíma í UFC þar sem hann sigraði yfirleitt eftir dómaraákvörðun. Frábær glímumaður sem notaði stærð sína til að halda mönnum þétt við búrið og gerði andstæðingum sínum erfitt fyrir að ná fram einhverjum sóknartilburðum. UFC var ekki að flýta sér að gefa honum titilbardaga í UFC og eftir sex sigra og eitt tap fékk hann titilbardaga. Meistarinn sjálfur, Anderson Silva, gjörsigraði Okami og átti Okami enga möguleika í bardaganum. Okami tapaði svo óvænt gegn Boetsch í næsta bardaga en eftir það sigraði hann þrjá bardaga í röð. Hann var kominn ansi ofarlega í millivigtinni aftur eftir sigur á Hector Lombard en UFC var aldrei að fara að gefa honum annan titilbardaga. Eftir tap gegn “Jacare” Souza var Okami rekinn úr UFC, mörgum til mikillar undrunar. UFC var sennilega fegið að geta losað sig við hann þar sem hann gat sigrað 95% af millivigtarmönnum UFC en var aldrei að fara að sigra meistarann. Að auki þótti hann leiðinlegur bardagamaður og hefði það verið algjör martröð fyrir UFC ef hann væri meistari.

Velaszquez lætur Dos Santos finna fyrir því.

3. Junior Dos Santos: Sigrar líklegast alla þungavigtarmenn heims, nema Cain Velasquez. Er frábær bardagamaður og skemmtilegur í þokkabót. Tvö sannfærandi töp gegn meistaranum Velasquez útiloka það að hann fái titilbardaga á næstunni. UFC getur ekki látið spennandi þungavigtarmenn (eins og Browne) mæta Dos Santos því þeir tapa líklegast fyrir honum. UFC þarf að láta Velasquez fá spennandi viðureignir og vilja því helst halda Dos Santos frá efnilegum þungavigtarmönnum. Dos Santos er í erfiðri aðstöðu þar sem fáir vilja sjá hann mæta Velasquez í fjórða sinn en er óumdeilanlega næst besti þungavigtarmaður heims.

2. Urijah Faber: Öll 7 töpin á ferlinum hafa komið í titilbardögum. Hann gat ekki sigrað meistarann í fjaðurvigtinni (Jose Aldo) og færði sig því niður í bantamvigtina. Þar hefur hann þrisvar fengið titilbardaga en ávallt tapað. Hann sigrar alla aðra með yfirburðum en hefur ekki enn tekist að ná í UFC belti. Tvö töp gegn núverandi meistaranum, Renan Barao, setja hann í erfiða stöðu í bantamvigtinni. Faber er feikilega skemmtilegur bardagamaður og góð söluvara svo það er ekki útilokað að hann fái fleiri titilbardaga en tíminn er að renna út hjá þessum 34 ára bardagamanni.

jon_fitch-300x289
Jon Fitch eftir bardagann gegn George St. Pierre.

1. Jon Fitch: Var í tæp 2 ár næst besti veltivigtarmaður veraldar. Eftir að hafa sigrað alla átta bardaga sína í UFC fékk hann titilbardaga gegn Georges St. Pierre. Meistarinn lamdi hann eins og harðfisk í 5 lotur og átti Jon Fitch aldrei möguleika í bardaganum. Eftir það sigraði Jon Fitch fimm bardaga í röð, alla eftir dómaraákvörðun, en aldrei fékk hann titilbardaga. Fitch sigraði sterka andstæðinga eins og Paulo Thiago og Thiago Alves (menn sem voru nálægt því að fá titilbardaga) en ekkert bólaði á stóra bardaganum. Fitch lét í sér heyra í fjölmiðlum en hann þótti enn of óspennandi bardagamaður fyrir titilbardaga og virtist vera í ónáð hjá Dana White. Leiðinlegt fyrir Fitch að vera minnst sem lang næst besta bardagamanninum í veltivigtinni. Er ekki lengur næst bestur en hann hefði getað ríkt yfir veltivigtinni um tíma ef ekki væri fyrir George St. Pierre.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular