Eins og glímuáhugamönnum er eflaust kunnugt um fer Metamoris V þann 22. nóvember þar sem goðsagnirnar Renzo Gracie og Kazushi Sakuraba eigast við í aðal glímu kvöldsins. Einnig mun UFC-stjarnan Rory MacDonald sýna hvað í sér býr í glímu þegar hann mætir heimsmeistaranum JT Torres.
Metamoris er glímukeppni þar sem skipuleggjendur para heimsþekktum glímumönnum saman í eina 20 mínútna glímu. Engin stigagjöf er við lýði og aðeins er hægt að sigra eftir uppgjafartak – annars er glíman skoruð sem jafntefli. Þetta verður í fimmta sinn sem Metamoris fer fram og hafa glímuáhugamenn fengið að sjá margar áhugaverðar glímur.
Eins og áður hefur komið fram mætast þeir Rory MacDonald og JT Torres í næstsíðustu glímu kvöldsins. Rory MacDonald þarf vart að kynna en hann er einn besti veltivigtarmaður heims og fær væntanlega titilbardaga í UFC á næsta ári. Hann er góður á öllum vígstöðum bardagans en þykir ekki framúrskarandi í gólfglímu líkt og andstæðingur hans. Það verður því áhugavert að sjá hvort MacDonald geti komið á óvart gegn JT Torres. Torres er margverðlaunaður glímumaður og sigraði heimsmeistaramótið í nogi í flokki svarbeltinga árið 2013. Hann þykir sérlega góður í nogi glímu og verður að teljast ágætt ef MacDonald tekst að ná jafntefli.
Allar glímur kvöldsins má sjá hér að neðan
Kazushi Sakuraba gegn Renzo Gracie
Rory MacDonald gegn JT Torres
Yuri Simoes gegn Rafael Lovato Jr.
Vinny Magalhaes gegn Kevin Casey
Garry Tonon gegn Zak Maxwell
Leyniglíma