Georges St. Pierre hefur alltaf verið þekktur fyrir að vera mikill heiðursmaður. Það sýndi hann enn og aftur á dögunum þegar hann ákvað að gefa beltið sem hann vann um síðustu helgi.
Georges St. Pierre snéri aftur í búrið um síðustu helgi eftir fjögurra ára fjarveru. Í aðalbardaga UFC 217 mætti hann Michael Bisping og tryggði sér millivigtartitilinn með því að klára Michael Bisping í 3. lotu.
GSP var lengi vel veltivigtarmeistari UFC en eftir hverja titilvörn gaf hann alltaf beltin frá sér til þeirra sem stóðu honum næst. Til að mynda fékk Firas Zahabi, yfirþjálfari hans, beltið eftir sigur GSP á Jake Shields á UFC 129. GSP fékk alltaf nýtt belti eftir hverja titilvörn en gaf þau alltaf frá sér.
Þrátt fyrir að vinna belti í nýjum þyngdarflokki um helgina var GSP ekki á því að gera undantekningu í þetta sinn. Beltið sem hann vann um síðustu helgi gaf hann Victor Zilbermen, yfirþjálfara Montreal Wrestling Club. GSP hefur alltaf verið þekktur fyrir frábærar fellur og felluvörn og þakkar hann m.a. Montreal Wrestling Club fyrir það.
Happy to give my new middleweight belt to coach Victor. I owe a big part of my success in the octagon to the Montreal Wrestling Club & YMHA! pic.twitter.com/bHx8YPEHsM
— Georges St-Pierre (@GeorgesStPierre) November 8, 2017