spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentGetum við treyst tasmaníudjöflinum Ray Borg?

Getum við treyst tasmaníudjöflinum Ray Borg?

Annað kvöld mun fluguvigtarmeistarinn Demetrious Johnson reyna að bæta met Anderson Silva yfir flestar titilvarnir í sögu UFC. Hér förum við aðeins yfir manninn sem ætlar að koma í veg fyrir það, Ray Borg.

Ray ‘The Tazmexican Devil’ Borg er 24 ára Bandaríkjamaður sem er mörgum ókunnugur. Það ráku margir upp stór augu þegar Ray Borg var í umræðunni um næsta titilbardaga gegn Demetrious Johnson. Upphaflega vildi Johnson mæta Sergio Pettis en UFC vildi frekar sjá Ray Borg í 11. titilvörn Johnson. Reyndar kom tímabil þar sem T.J. Dillashaw átti að fá titilbardagann en ekkert varð úr því og var það á endanum Ray Borg sem fékk titilbardagann.

Bardagi þeirra átti upphaflega að fara fram á UFC 215 í september en rúmum sólarhringi fyrir bardagann dró Borg sig úr bardaganum vegna veikinda. Bardaginn var svo settur aftur á laggirnar mánuði síðar.

Þó um sögulegan viðburð sé að ræða er bardaginn ekki aðalbardagi kvöldsins. 11. titilvörnin þarf að víkja fyrir einhverjum bráðabirgðar titilbardaga Tony Ferguson og Kevin Lee. Johnson hefur aldrei verið vinsælasti bardagamaðurinn í UFC en kannski er UFC einfaldlega ekki að treysta Ray Borg.

Borg var auðvitað veikur síðast og gat ekki barist. Það kemur fyrir á bestu bæjum en það er ástæða til að hafa smá áhyggjur af Ray Borg. Þetta var í annað sinn í UFC sem hann dregur sig úr bardaga vegna veikinda aðeins örfáum dögum fyrir bardagann. Tvisvar sinnum hefur honum mistekist að ná vigt en í þetta sinn er hann ekki einu sinni með næringarfræðing.

Borg rak næringarfræðinginn eftir UFC 215 og hefur ekki ráðið neinn í hans stað. Borg telur sig þekkja líkama sinn betur en nokkur næringarfræðingur og ætlar því að gera allt sjálfur í niðurskurðinum. Borg þarf að vera akkúrat 125 pund (eða minna) en það hefur honum aðeins einu sinni tekist í UFC. Leyfilegt er að vera einu pundi yfir tilsetta þyngd í UFC nema í titilbardögum. Þá þarf að vera akkúrat í réttri þyngd en auðvitað er leyfilegt að vera undir. Þegar niðurskurður er erfiður getur eitt auka pund haft mikið að segja. Sagan er ekki beint Ray Borg í vil en eins og áður segir hefur hann aðeins einu sinni verið akkúrat 125 pund. Oftast hefur hann verið u.þ.b. 126 pund.

Verði hann of þungur í vigtuninni verður þetta ekki titilbardagi og því getur Johnson ekki bætt metið. Með sigri í titilbardaga bætir Johnson met Anderson Silva en Silva lenti sjálfur í því á sínum tíma að andstæðingurinn náði ekki vigt. Travis Lutter var nokkrum pundum of þungur er þeir mættust árið 2007. Þar af leiðandi var það ekki titilbardagi en Silva fór samt með sigur af hólmi. Hefði Lutter náð vigt væri metið hans 11 titilvarnir.

Verður erfitt fyrir Borg

Ray Borg er 5-2 í UFC, bara unnið tvo bardaga í röð, þrír sigrar eftir dómaraákvörðun og hefur tvisvar sinnum mistekist að ná fluguvigtartakmarkinu. Ekkert stórkostlegur árangur ef út í það er farið. Staðreyndin er bara sú að Johnson er búinn að vinna nánast alla í þyngdarflokkinum og eru menn á borð við Ray Borg, Kyoji Horiguchi og Henry Cejudo sennilega að fá titilbardagana of snemma.

En Ray Borg er alveg sama um það. Hann hefur sagt það alveg frá því hann kom fyrst í UFC að honum sé ætlað að vinna Demetrious Johnson. Hann ætlar að verða sá fyrsti til að vinna Demetrious Johnson í fluguvigtinni og hefur þegar lofað honum að gefa honum endurat þegar hann vinnur Johnson.

Ray Borg er kannski ekki sá reynslumesti en hann er með reynslumikla menn í kringum sig. Hann æfir hjá Greg Jackson og Mike Winkeljohn en þeir munu sjá til þess að hann verði eins tilbúinn og mögulegt er fyrir fimm erfiðar lotur gegn Johnson. Auk þess hefur Borg mikið verið að æfa með John Dodson en Dodson hefur eytt 50 mínútum í búrinu með Johnson og ætti að geta gefið honum góð ráð.

Stuðullinn er ansi hár á sigur hjá Borg enda erfitt að sjá hvernig hann ætlar að vinna. Johnson hefur einfaldlega enga augljósa veikleika og er nánast fullkominn bardagamaður. Þó þeir Jackson og Winkeljohn séu snjallir þegar kemur að því að smíða góða leikáætlun eru þeir engir kraftaverkamenn. Þeim tókst ekki að gera það góða leikáætlun þegar John Dodson mætti Johnson í annað sinn í fyrra enda var það nokkuð einhliða bardagi.

Það er því ljóst að þetta verður ansi erfitt fyrir Ray Borg en eins og við höfum áður séð getur allt gerst í MMA og aldrei hægt að afskrifa neinn. Hver veit, kannski veit Ray Borg eitthvað sem við vitum ekki?

Bardaginn fer fram á UFC 216 annað kvöld í Las Vegas en bardagakvöldið verður sýnt beint á Stöð 2 Sport.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular