Tuesday, May 21, 2024
HomeForsíðaMagnús Ingi: Hef klárað alla mína sigra og það er ekki að...

Magnús Ingi: Hef klárað alla mína sigra og það er ekki að fara breytast núna

Magnús Ingi Ingvarsson berst á FightStar bardagakvöldinu í London á laugardaginn. Að öllum líkindum verður þetta síðasti áhugamannabardaginn hans og ætlar hann að klára þetta með sigri áður en atvinnuferillinn byrjar.

Magnús Ingi Ingvarsson (7-2-1) mætir Farukh Aligadjiev (5-0) í léttvigt á laugardaginn. Aligadjiev kemur frá Dagestan og er lítið vitað um hann. „Ég veit lítið sem ekkert um andstæðingin minn annað en að hann er ósigraður og frá Dagestan. Ég reyndi aðeins að skoða hann til þess að fá smá tilfinningu fyrir honum en það er ekki neitt til með honum á netinu – maðurinn er ekki einu sinni með Facebook! En þetta truflar mig mjög lítið þar sem að ég hef aldrei skoðað andstæðingana mína eitthvað sérstaklega. Ég hlakka bara til að taka á honum,“ segir Magnús um andstæðinginn.

Aligadjiev mun ekki geta mætt á vigtunina vegna persónulegra erinda. Hann mun því bara taka upp sína vigtun upp á myndband og það sama mun Magnús gera. Magnús fær því ekki að sjá andstæðinginn fyrr en stigið er í búrið.

Magnús barðist síðast á Evrópumótinu í MMA í Prag þar sem hann náði bronsinu eftir fjóra bardaga á fjórum dögum. Eftir bardagann á laugardaginn er stefnan sett á að taka atvinnubardaga.

„Það er mikið búið að spyrja mig út í það hvort ég sé ekki að fara pro og það gefur mér rosalegt sjálfstraust. Og eins og ég tilkynnti á Instagram og Snapchat þá verður þetta minn síðasti áhugamannabardagi.“

Magnús átti að berjast í apríl en skömmu fyrir bardagann lenti Magnús í ofþjálfun og þurfti að hætta við. Hann hefur nú jafnað sig eftir ofþjálfunina og er kominn aftur á fulla ferð en samt reynslunni ríkari.

„Ég tók mér frí allt sumarið frá hörðum æfingum eftir ofþjálfunina og einbeitti mér bara að tækni og að finna gleðina í æfingum aftur. Það var rosalega erfitt þar sem ég mátti bara æfa einu sinni til þrisvar í viku. Ég á erfitt með að sitja kyrr í hálftíma þannig að þetta tók á. En ég var byrjaður að æfa á fullu aftur í byrjun ágúst, svo kíkti ég til Spánar í tvær vikur fyrir þetta camp þannig að ég held ég hafi sjaldan verið betri.“

Síðan Magnús barðist síðast hefur hann verið að bæta sig alls staðar en kannski mest standandi. „Ég hef verið rosalega mikið að vinna í strikinginu mínu með Þórði Bjarkar og er farinn að blanda höggum og spörkum mjög vel saman.“

Eldri bróðir Magnúsar, Bjarki Þór Pálsson, verður í aðalbardaga kvöldsins en þetta er ekki í fyrsta sinn sem þeir berjast á sama kvöldi. „Það er alltaf gaman að berjast á sama kvöldi og Bjarki bróðir þar sem við búum saman og hjálpum hvor öðrum í einu og öllu. Það er samt alltaf stressandi að horfa á hann keppa, bara eins og alla sem ég þekki. Ég á töluvert auðveldara með að gera þetta sjálfur en að horfa á vini mína berjast.“

Bardagamenn frá Dagestan eru þekktir fyrir að vera afar harðir af sér en Magnús spáir lítið í því. Hann sér bardagann bara fara á einn veg. „Ég held að þetta verði hörku bardagi en ég hef klárað alla mína sigra og það er ekki að fara breytast núna.“

Leiðin að búrinu: Bjarki Þór Pálsson vs. Quamer Hussain

Þorgrímur Þórarinsson: Karóki miklu erfiðara en að stíga í búrið

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular