Thursday, March 28, 2024
HomeErlentGoðsögnin: Forrest Griffin

Goðsögnin: Forrest Griffin

forrest griffin 2Goðsögnin var í fríi í síðustu viku en snýr nú aftur. Þessa vikuna er goðsögnin hinn bráðskemmtilegi Forrest Griffin.

Forrest Griffin er einn vinsælasti bardagamaðurinn í sögu UFC. Hann var sá fyrsti til að vinna The Ultimate Fighter raunveruleikaseríuna ásamt Diego Sanchez. Hann varð svo léttþungavigtarmeistari eftir sigur á Quinton ‘Rampage’ Jackson árið 2008 en hélt beltinu ekki lengi.

Upphafið

Forrest Griffin glímdi ekki á skólaárum sínum en spilaði amerískan ruðning. Hann áttaði sig þó á því að hann yrði aldrei nógu góður til að komast langt í íþróttinni og vantaði einhverja aðra íþrótt til að stunda. Þá sá hann MMA bardaga, sem þá var reyndar kallaður „No Holds Barred“ bardagi, og hugsaði Griffin með sér „ég gæti gert þetta“. Hann byrjaði því að æfa MMA hjá The HardCore Gym (frumlegt nafn) og varð fljótt nokkuð góður í MMA. Fyrstu árin í MMA vann hann sem lögreglumaður áður en MMA ferillinn fór á flug.

Eftir nokkra áhugamannabardaga barðist Griffin sinn fyrsta atvinnumannabardaga gegn engum öðrum en Dan Severn. Hann tapaði þeim bardaga en vann næstu níu af tíu áður en hann fór í TUF. Meðal þeirra sem hann sigraði á þessari sigurgöngu var þungavigtarmaðurinn Jeff Monson og Chael Sonnen.

Einkenni

Griffin var alltaf „brawler“ en þó með ágætis fellur og uppgjafartök. Hann varð tæknilegri með árunum standandi og með ágætis felluvörn. Þá var hann auðvitað grjótharður en til marks um hörkuna hans verðum við að nefna bardagann gegn Edson Paradeo. Griffin handleggsbrotnaði eftir spark frá Paradeo snemma í bardaganum. Griffin hélt auðvitað áfram og endaði á að rota Paradeo eftir aðeins mínútu.

Stærstu sigrar

Stærsti sigur hans er sennilega þegar hann vann léttþungavigtarbeltið af Quinton ‘Rampage’ Jackson nokkuð óvænt. Griffin notaði lágspörkin grimmt gegn Jackson og sigraði eftir fimm lotu dómaraákvörðun. Griffin varð þar með sá fyrsti af fjórum til að vinna TUF og titil í UFC.

Sigurinn á Stephan Bonnar í úrslitum fyrstu seríu TUF er þó sennilega mikilvægasti bardaginn á ferlinum. Sá bardagi er sagður hafa bjargað lífi UFC en það er einn frægasti bardagi í sögu UFC. Þeir Bonnar og Griffin börðust í þrjár heilar lotur og var bardaginn sögulegt stríð. Þetta er bardagi sem allir bardagaaðdáendur ættu að horfa á að minnsta kosti einu sinni á ári.

Þá var sigurinn á Shogun Rua í september 2007 gríðarlega flottur. Sá bardagi skilaði honum titilbardaganum og var valinn óvæntasti sigur ársins og fékk hann verðlaun fyrir uppgjafartak ársins.

Verstu töp

Forrest Griffin á nokkur töp sem hann vill eflaust gleyma. Griffin var rotaður af Rashad Evans í sinni fyrstu titilvörn og tapaði titlinum. Honum tókst aldrei að komast nálægt titlinum aftur.

Frægasta tapið hans er klárlega tapið gegn Anderson Silva. Griffin leit út eins og barn að boxa við pabba sinn í bardaganum, svo mikill var geturmunurinn standandi. Griffin elti Silva með hægum og fyrirsjáanlegum höggum sem Silva kom sér undan auðveldlega. Griffin hefur talað um að þetta sé eitt versta augnablik lífs síns og er hann reglulega spurður út í bardagann af aðdáendum.

anderson silva forrest griffin

Fáir vita

Forrest Griffin hefur skrifað tvær bækur. Fyrsta bókin, Got Fight, hlaut góða dóma en í bókinni segir Griffin hvað þurfi til að ná langt í MMA. Nokkrum árum síðar gaf hann út sjálfshjálparbókina Be Ready When the Sh*t Goes Down: A Survival Guide to the Apocalypse.

Griffin er rétthendur en á erfitt með að nota hægri höndina í daglegum athöfnum í dag. Griffin var í miklum vandræðum með hægri öxlina sína sem varð til þess að hann hætti í MMA (og vegna annarra meiðsla). Síðustu þrjú ár ferilsins gat hann lítið notað hægri höndina á æfingum. Griffin skipulagði æfingarnar sínar eftir því hvar hann fann minnst til í skrokknum hverju sinni og átti alltaf við einhver meiðsli að stríða.

forrest griffin

Hvar er hann í dag?

Í dag er Griffin nokkurs konar sendiherra á vegum UFC. Hann mætir á UFC viðburði þar sem hann veitir viðtöl, hittir aðdáendur og hjálpar UFC við að kynna íþróttina á nýjum slóðum eins og t.d. í Filippseyjum.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular