0

Goðsögnin: Johnny Hendricks

Johnny Hendricks hefur ákveðið að hengja upp hanskana aðeins 34 ára gamall. Hvort þessi ákvörðun verði varanleg verður að koma í ljós en sennilega væri það fyrir bestu þar sem ólíklegt er að hann nái aftur sínu besta formi.

Ferill Hendricks fór upp í hæstu mögulegar hæðir og niður í lægstu lægðir. Hann var virtur keppandi og meistari en síðar gagnýndur mikið fyrir agaleysi og þá sérstaklega í mataræðinu. Hans helsti andstæðingur var vigtin en Hendricks sveiflaðist mikið til í vigt á milli bardaga og náði ekki réttri vigt í þremur af síðustu fimm bardögum sínum. Hendricks var ekkert sérstaklega vel liðinn persónuleiki en þegar hann var upp á sitt besta var hann viðurkenndur sem einn af þeim allra bestu í heiminum.

Upphafið

Johnny Hendricks fæddist í bænum Ada í Oklahoma. Hann keppti ungur fyrir Oklahoma fylki í ólympískri glímu og var þrefaldur fylkismeistari á meðan hann stundaði nám í Edmond Memorial High School. Ferill hans frá þessu tímabili var 101 sigur á móti 5 töpum sem er með því besta sem þekkist. Eftir gott gengi á árunum 2003 til 2006 tók hann þátt í landmótinu og endaði í öðru sæti eftir tap gegn Mark Perry. Hendricks var fjórfaldur All-American (á topp 8 á landsvísu) í efstu deild bandarísku háskóladeildarinnar (NCAA Division 1) en hóf svo feril sinn í MMA á haustmánuðum ársins 2007. Hendricks var þekktur fyrir að vera „slæmi strákurinn“ í háskólaglímunni enda þótti honum ekki leiðinlegt að espa upp andstæðinga og stuðningsmenn andstæðinganna.

Einkenni

Hendricks er hreinræktaður glímukappi. Hann gat kæft menn eins og blaut tuska en kærði sig þó lítið um það. Hendricks var mjög höggþungur og gat slökkt á mönnum með einu höggi eins og hann gerði eftirminnilega í bardögum gegn Martin Kampmann og Jon Fitch. Útlitslega einkenndi glæsilegt skegg Johnny Hendricks framan af sem lét hann líta út eins og skógarhöggsmann. Krafturinn virtist þó hafa yfirgafið hann enda hefur hann ekki rotað neinn síðan árið 2012.

Stærstu sigrar

Hendricks átti marga flotta sigra á ferlinum en sá stærsti var sennilega sigur gegn Robbie Lawler á UFC 171 árið 2014. Bardaginn var spennandi og var af mörgum valinn besti bardagi ársins það ár. Í lokin stóð Hendricks uppi sem meistarinn í veltivigt sem var langþráð stund eftir grátlegt tap gegn Georges St. Pierre árið áður. Í þeim bardaga hefði Hendricks hæglega getað verið dæmdur sigurinn og hefði það verið hans lang stærsti sigur á ferlinum. Hendricks barðist bæði í veltivigt og millivigt en var upp á sitt besta í veltivigt.

Verstu töp

Verstu töp Johnny Hendricks komu í lok ferilsins. Fram að árinu 2016 hafði hann tapað þremur bardögum á stigum en aldrei verið stöðvaður eða nálægt því að vera kláraður. Í febrúar 2016 mætti hann hins vegar Stephen ‘Wonderboy’ Thompson sem gjörsamlega tók okkar mann í sundur og rotaði í fyrstu lotu. Það tap var sennlega það versta á ferlinum en síðustu tvö töpin gegn Tim Boetsch og Paulo Costa voru einnig slæm en báðir afgreiddu Hendricks á tæknilegu rothöggi í annarri lotu. Ýmsir hafa bent á að Hendricks átti afar slæmu gengi að fagna eftir að USADA byrjaði að sjá um lyfjamál UFC.

Fáir vita

Hendricks fékk viðurnefnið Bigg Rigg þegar hann mætti eitt skiptið á risastórum trukk með aftanívagni (kallað big rigg). Hann þótti kýla eins og trukkur og einhvern veginn var þetta tengt saman.

Hendricks opnaði veitingastaðinn Bigg Rigg´s Steakhouse en árið 2016 var honum lokað eftir slæmt gengi. Veitingastaðurinn fékk arfaslaka umsögn á netinu.

Hendricks hefur alltaf átt erfitt með að halda mataræðinu góðu en sagan segir að þegar Hendricks var í háskólaglímunni hafi þjálfari hans kíkt á alla helstu skyndibitastaði bæjarins á kvöldin til að athuga hvort Hendricks væri að fá sér eitthvað óhollt.

 

Hvar er hann í dag?

Hendricks tók nýlega við þjálfarastöðu hjá All Saints skólaliðinu (Episcopal High School) í Texas. Hann hefur lofað því að hann sé alveg farinn úr MMA heiminum og er eflaust afar feginn því að þurfa ekki að hafa áhyggjur af vigtinni lengur.

Óskar Örn Árnason

- Blátt belti í jiu-jitsu
- MS í fjármálum fyrirtækja
Óskar Örn Árnason

Comments

comments

Óskar Örn Árnason

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.