spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaGunnar: Mikill léttir að vera kominn með bardaga

Gunnar: Mikill léttir að vera kominn með bardaga

Það hefur nú verið staðfest að Gunnar Nelson mætir Neil Magny í maí í Liverpool. Gunnar er ákaflega feginn því að vera loksins kominn með bardaga.

Bardaginn fer fram á UFC bardagakvöldinu í Liverpool þann 27. maí. Gunnar reyndi að fá bardaga á UFC bardagakvöldinu í London í mars en gekk ekki eftir. Gunnar var því orðinn ansi óþreyjufullur á að fá bardaga.

„Jú það er mikill léttir [að vera kominn með bardaga]. Búinn að vera langur tími að reyna að finna einhvern. Við erum búin að halda nokkrum sinnum að ég sé kominn með bardaga og einhverjir búnir að vera að rífa sig og svona og síðan gerist ekki neitt. Þannig að þetta er góð tilfinning,“ segir Gunnar.

Gunnar Nelson
Mynd: Mjölnir/Sóllilja Baltasardóttir.

Lengi var talað um mögulegan bardaga gegn Darren Till en það gekk ekki eftir var enginn á topp 15 styrkleikalistanum tilbúinn að berjast við Gunnar í London. „Það vildi basicly enginn í topp 15 berjast og það voru tveir mánuðir af þessu í gangi. Það var bara ekki hægt að fá neitt.“

Gunnar var rotaður af Santiago Ponzinibbio í júlí en þetta var fyrsta tap Gunnars eftir rothögg. Gunnar ákvað að berjast ekki aftur á árinu og tók sér góða hvíld eftir rothöggið. Hann var þó farinn aftur af stað á æfingar um það bil þremur mánuðum eftir tapið og segist vera í góðu standi í dag.

Embed from Getty Images

Neil Magny er í 9. sæti styrkleikalistans og er þetta frábært tækifæri fyrir Gunnar til að klifra aftur upp styrkleikalistann. Magny er með sigra á sterkum bardagamönnum á borð við Carlos Condit, Kelvin Gastelum, Hector Lombard og Johny Hendricks. Gunnari lýst mjög vel á Magny sem andstæðing.

„Ég hélt að ég hefði jafnvel átt að vera búinn að berjast við hann fyrr, það var nokkrum sinnum búið að tala um þetta en það varð ekkert úr því. Ég er búinn að vera spenntur að mæta honum í einhvern tíma. Þetta er bara geðveikt, mjög feginn að fá Njál.“

„Ég hef séð örugglega flesta bardaga með honum síðan hann varð að nafni í UFC. Mjög stór og langur, með mikla faðmlengd, notar jabbið sitt svolítið og er bara almennt seigur á flestum vígstöðum. Miðað við sjálfan mig, mögulega væri hann slappastur í jörðinni, eins og á móti Maia, sem er reyndar algjört villidýr. En mér finnst svona eins og þegar ég sé hann í jörðinni þá finnst mér hann ekkert vera neitt svakalega öflugur. En hann er samt svona dísil vél, hann mallar alveg vel áfram. Hans flottasti sigur að mínu mati var á móti Hector Lombard þar sem Hector kláraði hann næstum því í 1. lotu og síðan mallaði dísil vélin áfram og þraukaði í gegnum þetta og kláraði hann í þriðju.“

Embed from Getty Images

Magny er hávaxnasti andstæðingur sem Gunnar hefur mætt en Magny er 191 cm á hæð og með 203 cm langan faðm. Til samanburðar er Gunnar 180 cm á hæð og með 183 cm langan faðm.

„Maður þarf bara að komast inn fyrir. Hann er ekkert svakalega hraður, það er hægt að nýta sér það, beygja sér undir höggin eða framhjá þeim, komast inn með sín högg og inn í clinchið og taka hann niður jafnvel. Þá nær hann kannski ekki að nota reachið jafn vel, allavegna ekki í mount bottom, væri gott að komast þangað.“

Gunnar heldur til Írlands á næstu dögum þar sem hann mun kenna nokkur námskeið en eftir námskeiðstörnina heldur hann aftur heim þar sem undirbúningurinn fyrir bardagann mun að mestu fara fram.

„Það eru strákar að koma hérna og æfa með okkur, meðal annars Tom Breese, sem er í UFC og er að berjast á sama cardi. Hann var í veltivigt og er kominn upp í millivigt, fleiri að koma með honum og geri ráð fyrir að það komi einhverjir frá Írlandi líka hérna til að æfa með okkur. Þannig að ég hugsa að campið verði meira og minna bara hér heima.“

Viðtalið í heild sinni má sjá hér að ofan.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular