MMA-brautryðjandinn Gunnar Nelson mætir Bandaríkjamanninum kostulega Kevin Holland á laugardaginn kemur. Þetta verður sextándi bardaginn hans Gunna innan UFC og sá allra mest spennandi í langan tíma. Gunni hefur dvalist síðastliðnar vikur í Króatíu í undirbúningnum fyrir bardagann en hann er núna kominn til London til að sinna fjölmiðlaskyldum sínum og leggja lokahönd á undirbúninginn.
Bardagakvöldið er á frábærum tíma fyrir okkur Íslendinga og verður sýnt frá viðburðinum í beinni útsendingu í Mini Garðinum þar sem Simmi Vill sér um veislustjórn. Hægt er að panta borð í rífandi stemningu hér. Aðalbardagarnir byrja klukkan 20:00 en upphitunarbardagarnir (Prelims) byrja kl. 17:00.
Þrír lærisveinar Gunnars berjast svo í Wolverhampton næstu helgi. Það verður einnig hægt að fylgjast með Gunna í þjálfarahlutverki á Mini Garðinum þá, en meira um það síðar.
Gunni virkar mjög beittur þrátt fyrir langa bið
Gunnar hefur beðið lengi eftir bardaga en hann vildi upprunalega berjast undir lok síðasta árs. Það gekk hins vegar ekki eftir og þurfti Gunni að bíða eftir andstæðingi ögn lengur. Biðin borgaði sig þó heldur betur og fékk hann þennan feykiskemmtilega andstæðing sem Kevin Holland er.
Eftir að bardaginn var staðfestur og fyrstu viðtöl við Gunna birtust inni á öllum helstu fjölmiðlum var uppleggið þannig að Gunni færi til Króatíu og myndi svo klára æfingabúðirnar á Írlandi eins og hann hefur gert oft áður. Dvölin í Króatíu var hins vegar svo góð að kappinn sá enga ástæðu til þess að fara til Írlands og kláraði undirbúninginn í American Top Team Zagreb. Í þessum klúbbi er fjöldinn allur af bardagamönnum í hæsta gæðaflokki sem Gunnar lýsir best sjálfur sem „algjörum sharktank“. Gunni ræddi dvölina í stuttu innslagi á Instagram-síðu Mjölnis. Þarna þarf Gunni að vinna fyrir hlutunum og ekkert er gefins.
Hættulegur og spennandi andstæðingur með sögu
Kevin Holland hefur verið mjög virkur upp á síðkastið og mætt hrikalega sterkum andstæðingum í veltivigtinni og þyngdarflokknum fyrir ofan (millivigtinni). Kevin Holland er mjög hávaxinn og langur og gæti auðveldlega barist í þyngri flokk en 77 kg flokknum með Gunna.
Kevin Holland er ávallt mjög virkur bardagamaður og er þetta annar bardaginn hans á árinu en hann barðist þrisvar sinnum í fyrra. Það má færa rök fyrir því að þetta sé fullmikið af því góða þar sem Holland hefur einungis sigrað eina viðureign af síðustu fimm. Það má þó alls ekki vanmeta Holland, hann hefur verið að berjast við þá allra bestu í deildinni og er mjög vanur að mæta algjörum ljónum í búrinu. Gunni hefur verið lengi frá og eru núna liðin tvö ár síðan hann mætti Bryan Barberena sem var leystur undan samningi eftir tapið gegn Gunna. Ef við berum saman síðustu þrjá andstæðinga Gunnars við andstæðinga Hollands er mjög borðliggjandi að Hollandi hefur verið að mæta sterkari mótspyrnu.
Gunnar Nelson og Kevin Holland eiga tvo sameiginlega andstæðinga, annar þeirra er argentínska gerpið Santiago Ponzinibbio. Fyrir þá sem hafa tekist að gleyma rotaði Ponzinibbio Gunna í Glasgow árið 2017 eftir að hafa potað í augun á Gunna í þrígang án þess að dómarinn tæki eftir því, sem var einstaklega merkilegt því bardaginn entist aðeins í 82 sekúndur. Ponzinibbio varð á augabragði einn hataðasti maður landsins eftir ósmekklegan sigur á óskabarni þjóðarinnar. Á þessum tíma var ferillinn hans Gunna í hæstu hæðum og upplifðu margir aðdáendur mikla ósanngirni í kringum þennan bardaga.
Snemma árs 2023 mætti Ponzinibbio svo Kevin Holland, sem gerðist mikill Íslandsvinur þetta kvöld með rothöggi gegn Argentínumanninum. Fyrir þá langræknu bardagaáhugamenn var hreint unaðslegt að sjá Ponzinibbio steinrotaðan með rassinn upp í loftið á miðju gólfinu.
Gunnar talinn líklegri í hnífjöfnum bardaga
Veðbankarnir hafa gert upp hug sinn og er Gunni talinn líklegri til sigurs, en það er mjótt á munum. Coolbet segir 1.84 á Gunna gegn 2.05 á Kevin Holland. En hvernig gæti bardaginn þróast?
Það er ekkert leyndarmál að Gunni vill líklega fá bardagann í gólfið. Þrátt fyrir að Kevin Holland sé svartbeltingur í BJJ eins og Gunni þá er ekki þar með sagt að þeir séu jafnir í gólfinu. Gunni er hrikalega hættulegur þegar hann kemst á bakið á andstæðingi sínum en Kevin Holland sýndi ákveðinn veikleika í síðasta bardaga gegn Reinier de Ridder sem kláraði Kevin Holland með Rear Naked Choke í fyrstu lotu. Gunni hefur klárað fimm bardaga í UFC með sama uppgjafartaki. Þar að auki má ekki gleyma að Gunni er með flesta sigra með uppgjafartaki í veltivigtinni í sögu UFC.

Kevin Holland er hávaxinn maður með langa útlimi. Hann er 191 cm á hæð, 10 cm hærri en Gunni og með 23 cm lengri faðm. Gunni hefur ekki mætt andstæðing með svona líkamlegt atgerfi innan UFC áður en hann er hins vegar vanur að berjast og æfa með mönnum sem eru hærri en hann sjálfur. Þetta ræddi Jón Viðar Arnþórsson, einn stofnanda Mjölnis, í nýjasta hlaðvarpsþætti Fimmtu Lotunnar. Þátturinn er aðgengilegur á Spotify og Youtube rás MMA Frétta.
Það liggur því helst fyrir að Gunni þurfi smá tíma til þess að reikna út fjarlægðina gegn Holland en þegar hann hefur gert það getur Gunni byrjað að vinna og spila sinn leik. Kevin Holland fékk mikilvæga reynslu sem gæti hjálpað honum á laugardaginn þegar hann barðist við Michael Page í fyrra. Page berst með sama karate-stíl og Gunni en Kevin Holland gekk ekkert rosalega vel að eiga við sprengikraftinn hans Page, sem er sama vopn og Gunni hefur tileinkað sér.
Fjölmiðlar eru spenntir að sjá Gunna aftur
Núna þegar styttist í bardagann rignir inn viðtölum við Gunna ásamt því að bardagaspekingar keppast við að greina bardagann og spá í honum frá öllum vinklum. UFC mun halda fjölmiðladag á fimmtudaginn og mun Gunni sinna sinni helstu fjölmiðlaskyldu þá. Má búast við flóði af viðtölum uppúr því.
