spot_img
Monday, December 23, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaGunnar Nelson nýr formaður Mjölnis

Gunnar Nelson nýr formaður Mjölnis

Gunnar Nelson er nýr formaður Mjölnis en þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu. Gunnar er einn af stærstu hluthöfum félagsins og er stjórnarformaður félagsins.

Þetta mun þó hafa lítil áhrif á feril Gunnars en hann mun áfram einbeita sér að sínum ferli sem bardagamaður. Hann er því ekki að fara að skipta út æfingafötunum fyrir jakkaföt til þess að sitja fyrir framan Excel skjöl dags daglega.

Gunnar var í Brennslunni á FM 957 í morgun ásamt Ingunni, aðstoðarframkvæmdastjóra Mjölnis, en þar kom fram að 1959 iðkendur eru skráðir í félaginu í dag.

„Mjölnir hefur verið afar stór hluti af mínu lífi undangengin 13 ár og ég tek stoltur að mér það hlutverk að verða formaður félagsins,” segir Gunnar er fram kemur í fréttatilkynningunni.

,,Með þessu hef ég þó ekki í hyggju að fara að skipta mér mikið af rekstrinum. Afar vandað fólk er í því hlutverki. Ég mun hins vegar vera virkur þátttakandi í stefnumótun og eflingu íþrótta- og keppnisstarfs. Hér hefur minn bardagaferill mótast og mun halda áfram að gera það næstu árin en samhliða mun ég nýta reynslu mína til að styðja aðra í sinni mótun.”

Miklar breytingar hafa átt sér stað í félaginu undanfarin ár. Þær breytingar eru að mestu afstaðnar og hafa aldrei verið fleiri meðlimir en nú.

„Breytingum eins og þeim að flytja í mun stærra húsnæði fylgdu skiljanlega áherslubreytingar. Það þurfti að eiga sér stað smá naflaskoðun og það þurfti að leggja nýjar línur. Ekki var einróma sátt um þær ákvarðanir sem teknar voru og mannabreytingar fylgdu í kjölfarið.“

,,Eftir stendur sterkur og samstíga hópur sem lítur framtíðina björtum augum. Þetta var erfitt á meðan á því stóð en við sem eftir erum, erum sannfærð um að rétt skref hafi verið stigin. Við erum að horfa fram veginn og erum með áætlun um hvernig við ætlum að haga uppbyggingu félagsins. Meðlimir eru fleiri, tímataflan hlaðnari og stemmningin betri en nokkru sinni fyrr. Þannig að það er á hreinu að við erum að gera eitthvað rétt.“

Gunnar leggur áherslu á að allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi í Mjölni en til viðbótar við þær bardagaíþróttir sem hægt er að æfa þar má finna þrek- og styrktarþjálfun, jóga og auðvitað viðamikið barnastarf. Jafnframt er góð aðstaða til hverskyns líkamsræktar.

„Það eru mögulega ennþá einhverjir sem halda að það séu bara þeir sem séu sáttir við fá högg í andlitið sem geti æft hjá Mjölni. Það er náttúrulega alrangt,” segir Gunnar með bros á vör.

,,Allir geta æft í Mjölni. Hvort sem hugurinn leiðir þig að bardagaíþróttum eða einhverri annarri hreyfingu og rækt. Aðstaðan er frábær, dagskráin fjölbreytt og mig langar að nota þetta tækifæri til að ítreka að öllum sem langar að æfa í Mjölni stendur það til boða.”

Ekki hefur farið framhjá neinum að Gunnar er í leit að sínum næsta bardaga. Óljóst er sem stendur hvenær og hvar sá bardagi færi fram en Gunnar er ekki að setja bardagaferilinn í annað sæti vegna stöðu sinnar sem formaður.

,,Ég er ekki í nokkrum vafa um að mín bestu ár sem bardagamaður eru fyrir framan mig. Í seinasta bardaga leið mér betur en nokkru sinni áður,” segir Gunnar. ,,Var hraðari, sterkari og skarpari en ég hafði áður verið í bardaga. Bardaginn fór eins og hann fór en ég tek þessa vissu með mér út úr búrinu og geri ráð fyrir að vera enn ferskari næst þegar einhver fæst til að mæta mér.”

Gunnar segir aðstöðuna í Mjölni til æfinga vera með því besta sem gerist í heiminum. ,,Menn allstaðar að flykkjast til Íslands til að æfa með okkur og trúa varla hvað aðbúnaðurinn er góður. Hér á landi eru svo sífellt að koma upp fleiri og fleiri bardagamenn með fullt erindi inn á stóra sviðið. Það eru góðir tímar framundan.”

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular