Gunnar Nelson var gestur í The MMA Hour hjá Ariel Helwani í dag. Þar talaði hann um tapið gegn Santiago Ponzinibbio, hans næsta bardaga og sviðakjammann á BSÍ.
Gunnar Nelson var í skemmtilegu viðtali í The MMA Hour í dag. Spjallið fór um víðan völl en byrjuðu spjallið á því að ræða um tapið umdeilda gegn Santiago Ponzinibbio.
Gunnar segir að hann hafi að mestu sett tapið í baksýnisspegilinn þó þetta hafi verið vissulega svekkjandi. Besta leiðin er þó að fá næsta bardaga og vinna hann til að koma tapinu almennilega í burtu.
Gunnar og hans lið afrýjuðu tapinu en Gunnar sagði að hann hefði ekki viljað áfrýja í fyrstu. Hann hafi þó ákveðið að áfrýja til að setja fordæmi fyrir aðra. UFC tók áfrýjunina ekki gilda og stóð tapið en Gunnar telur að Ponzinibbio hafi potað viljandi í augun á sér – sérstaklega síðasta augnpotið.
Gunnar tók sér hvíld frá hörðum æfingum út árið en er nú aftur kominn á fullt. Hann segist ekki vera með staðfestan bardaga en sér fyrir sér að berjast á UFC bardagakvöldinu í London í mars. Darren Till hefur verið nefndur sem mögulegur andstæðingur. Þá var hann einnig til í endurat gegn Santiago Ponzinibbio og var viss um að hann myndi sigra ef þeir myndu mætast aftur.
Að lokum talaði hann um sviðakjammann á BSÍ sem Gunnar segist vera hrifinn af. Þáttinn má horfa á hér að neðan en þátturinn er enn í beinni útsendingu. Gunnar er fyrsti gestur þáttarins.