Gunnar Nelson fellur niður um eitt sæti á nýjum styrkleikalista UFC í veltivigtinni. Leon Edwards fer upp um nokkur sæti á nýjum lista og þar á meðal yfir Gunnar.
Styrkleikalistinn er samansettur af fjölmiðlamönnum víðs vegar um heiminn og kemur nýr listi nokkrum dögum eftir hvern viðburð UFC. Þar raða fjölmiðlamenn 15 bestu áskorendunum á eftir meistaranum í hverjum flokki fyrir sig.
Leon Edwards sigraði Donald Cerrone á UFC bardagakvöldinu í Singapúr um síðustu helgi. Fyrir helgina var Cerrone í 11. sæti og Edwards í 13. sæti en með sigrinum hefur Edwards farið upp um tvö sæti og er nú í 11. sæti. Á sama tíma dettur Gunnar úr 12. sæti í það 13. en Gunnar hefur ekki barist síðan hann tapaði fyrir Santiago Ponzinibbio í júlí í fyrra.
Að öðru leyti voru ekki miklar breytingar á styrkleikalistunum en listana í öðrum þyngdarflokkum má sjá hér.