spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentGunnar: Thiago hefur horfið eftir að USADA kom inn

Gunnar: Thiago hefur horfið eftir að USADA kom inn

Mynd: Snorri Björns.

Gunnar Nelson mætir Thiago Alves á UFC bardagakvöldinu í Kaupmannahöfn í september. Gunnar telur að Thiago Alves hafi áður verið að nota ólögleg frammistöðubætandi efni.

Thiago Alves er reynslubolti en hann hefur verið í UFC frá 2005. Hann hefur átt erfitt uppdráttar að undanförnu og verður 36 ára í október. Gunnar talaði um bardagann í Eurobash hlaðvarpinu með Petesy Carroll hjá MMA Fighting.

„Hann er þekkt nafn þannig að þetta er góður bardagi. Ég er spenntur að mæta honum, hann er algjör bolabítur. Hann hefur verið lengi að en ég veit ekki hvort hann sé á topp 15 á styrkleikalistanum eða ekki. Hann hefur hálfpartinn horfið eftir að USADA kom inn,“ sagði Gunnar Nelson við Eurobash hlaðvarpið en Gunnar grunar að Alves hafi gerst sekur um notkun á ólöglegum frammistöðubætandi efnum á ferlinum.

Thiago er með þrjá sigra og fimm töp á síðustu fjórum árum og á ekki marga bardaga eftir á ferlinum. Thiago Alves féll á lyfjaprófi árið 2006. Lyfjaprófið innihélt ólögleg þvagörvandi efni en Alves hélt því fram að hann hefði notað efnið til að hjálpa sér að skera niður. Alves var á sínum tíma í vandræðum með að skera niður í 77 kg veltivigt en efnin hafa einnig verið notuð til að fela steranotkun.

Gunnar hélt því einnig fram hve ánægður hann er með innkomu USADA. USADA sér um öll lyfjamál UFC og taka menn í lyfjapróf allt árið, hvar sem þeir eru staddir í heiminum.

„USADA hefur gert frábæra hluti með UFC. Ég er mjög ánægður hvernig hlutirnir hafa þróast. Maður sér mikinn mun á bardagamönnum en það eru auðvitað menn ennþá að gera eitthvað og menn eru að falla á lyfjaprófum hér og þar en sumir eru örugglega að komast upp með það. Að minnsta kosti verða þeir hræddir núna. Þeir geta ekki tekið eins mikið eða tekið inn sömu efni eða hvað sem þeir eru að gera. Hvað sem USADA er að gera er það að skila árangri og ég elska það.“

„Þetta er ekki eitthvað sem ég hugsa um fyrir bardaga [hvort andstæðingurinn sé á sterum eða ekki]. Svona er þetta bara en ég fer bara í búrið og finn orkuna sem er til staðar en þetta er klárlega stór þáttur. Ég fíla ekki menn sem eru að nota þessi efni en þeir eru að því og gera það á hæsta getustigi. Ég hef mínar skoðanir á þessu en það er í raun ekkert sem ég get gert í því. Ef einhver sem ég er að berjast við er að taka eitthvað inn kemst hann kannski upp með það, kannski ekki. Það eina sem ég hugsa um er hvað ég ætla að gera. USADA sér um þetta og ég pæli ekki mikið í þessu.“

Gunnar hefur alla tíð talað gegn frammistöðubætandi efnum og segir að ef hann teldi að hann þyrfti stera til að keppa myndi hann leggja hanskana á hilluna. 

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular