spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaHalldór Logi: Það mun alltaf kitla að keppa hér heima

Halldór Logi: Það mun alltaf kitla að keppa hér heima

Margrét Ýr og Halldór Logi.

Halldór Logi Valsson vann opna flokkinn á Íslandsmeistaramótinu í brasilísku jiu-jitsu sem fór fram um síðustu helgi. Halldór hefur þar með unnið öll stóru mótin á Íslandi og setur hann allan fókusinn á mót erlendis þessa dagana.

Halldór Logi vann bæði sinn flokk og opna flokkinn á mótinu um síðustu helgi. Þetta var í fyrsta sinn sem Halldór Logi vinnur opna flokkinn á Íslandsmeistaramótinu.

„Það var frábær tilfinning að taka þennan titil loksins. Er búinn að reyna við þennan titil 6 eða 7 sinnum og loksins er hörð vinna búin að skila sér. Þetta er þýðingarmikill titill fyrir mig. Með þessum titli hef ég núna unnið öll BJJ mót sem ég er gjaldgengur í á Íslandi og er það klárlega góður milestone. Það þýðir samt ekki að ég sé hættur að keppa hér. Ég viðurkenni að ég horfi meira út fyrir landsteinana núna en það mun alltaf kitla að keppa hér heima. Jafnast ekkert við stemninguna,“ segir Halldór Logi.

Halldór þjálfar í Mjölni og er einn af yfirþjálfurum í barna- og unglingastarfi félagsins. Hann var því með marga keppendur á mótinu á laugardaginn og nóg að gera við að aðstoða keppendur.

„Mér fannst mótið ganga bara virkilega vel. Er sérstaklega ánægður með árangur liðsins okkar í heildina og hjá krökkunum. Gaman að sjá árangurinn og að æfingarnar hafa verið að skila sér. Þreytan sagði klárlega til sín hjá mér undir lokin eftir að hafa verið að coacha allan daginn en var almennt sáttur að ná að komast í gegnum þetta og skila þeim árangri sem ég get verið sáttur með.“

„Stærsta áskorun dagsins var að þjálfa allan daginn og fara svo að keppa. Ég ætlaði mér upprunlega ekki að keppa sjálfur heldur að leggja alla mína orku í að þjálfa krakkana og síðan fullorðna hópinn seinna um daginn. Ég tók hins vegar þá ákvörðun að keppa byggða á því að reyna að venja mig á það að keppa undir frekar ömurlegum aðstæðum til að gefa sjálfum mér meiri áskorun. Yfirleitt þegar maður fer út að keppa er maður svangur, þreyttur og almennt séð ekkert alltof vel upp lagður þar sem keppnisdagurinn einkennist af mikilli bið, svo þetta var fullkomin reynsla fyrir það.“

Mótið um helgina var stærsta BJJ mót sem haldið hefur verið hér á landi enda keppt í barna-, unglinga- og fullorðinsflokkum á sama deginum.

„BJJ á Íslandi er að þróast mjög vel. Það var það skemmtilegasta við þetta mót, sjá árangurinn og bætingarnar hjá fólkinu í kringum sig. Við erum alltaf að eignast sterkari keppendur og núna erum við að senda mikið af fólki út í heim að keppa á stórum mótum með mögnuðum árangri. Það sem ég held samt að skari úr með þróun á íþróttinni eru krakkarnir. Þeim fjölgar ört og hæfileikinn og dugnaðurinn sem þau sýna býður upp á mjög jákvæða framtíð. Barna- og unglingstarf í BJJ þekktist ekki þegar ég var að byrja að æfa sem er ekkert fyrir svo löngu og ég get ekki beðið eftir að krakkarnir sem við höfum verið að þjálfa fari að rústa mér.“

Halldór Logi hefur verið duglegur að keppa erlendis á undanförnum árum og keppti til að mynda á Polaris og Sub Over 80 í mars. Hann hefur aðallega verið að keppa í nogi glímu og lítið sést í gallanum.

„Fyrst og fremst þá fýla ég hraðann í nogi meira, það er meira raw og aðeins meira brutal sem mér finnst gaman. Ég elska að eltast við uppgjafartök og keppi því mest í submission only reglusettum þar sem allt snýst um uppgjafartökin. Ég er heltekinn af lappalásum og guillotines og þeir lásar eru bara því miður varla í boði í gallanum. Síðan er framtíðin meiri í nogi held ég, það er meira fyrir augað og fólk sem þekkir íþrottina ekki jafn vel tengir betur við nogi. Þar af leiðandi eru fleiri tækifæri á stórum showum og meiri peningur í boði.“

Fyrr í október hélt Halldór til Englands ásamt Kristjáni Helga Hafliðasyni til að keppa á Battle Grapple glímumótinu. Upprunalegi andstæðingur Halldórs meiddist og tókst ekki að finna andstæðing í tæka tíð fyrir Halldór.

„Ég var kominn með góðan andstæðing og búinn að undirbúa mig undir hann vel. Því miður æxlaðist það þannig að hann slasaðist á öxl 4 dögum fyrir glímuna okkar og þurfti að draga sig úr keppni. Ég reyndi mitt besta að aðstoða við að finna nýjan andstæðing og sagðist vera til í hvern sem er í hvaða þyngd sem er. Ég setti inn Facebook póst og kallaði nokkra út á Instagram og áður en ég vissi af var ég kominn með svör frá um það bil 50 mismunandi aðilum sem voru til í þessa glímu.“

„Ég sendi öll nöfn á promoterinn en því miður af einhverjum óskiljanlegum ástæðum varð ekkert úr því. Þeir sögðu að flestir sem höfðu svarað hefðu ekki verið nógu góðir og þeir sem voru það höfðu ekki gefið svar til baka. Á keppnisdaginn fékk ég skilaboð frá sterkum aðila frá Birmingham í minni þyngd sem var til í að taka þetta frítt, keyra á staðinn og glíma en þá vildu promoterarnir meina að það væri orðið of seint þar sem allt production væri nú þegar tilbúið. Ég fékk þó að fylgja Kristjáni út og sjá hann valta yfir sinn andstæðing svo það var þess virði. Þeir lofuðu okkur svo stæði á næsta showi hjá þeim.“

Halldór Logi er alltaf að leita að mótum erlendis til að keppa á og er með nokkur mót í pípunum. „Ég er alltaf eitthvað að leitast eftir að keppa. Er með staðfest mót í Dublin þann 14. desember sem er 8-manna submission only mót þar sem sigurvegarinn fær 1000 pund. Síðan tek ég því sem býðst, hef fengið nokkur boð núna sem ég er að skoða og get vonandi upplýst um á næstu dögum!“

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular