Mjölnir Open 16 fer fram á laugardaginn. Mótið er sterkasta uppgjafarglímumót landsins og eru 87 keppendur skráðir til leiks á mótið.
Mjölnir Open er elsta BJJ-mót landsins enda hefur það verið haldið árlega frá árinu 2006, að undanskildu árinu 2020 þegar kórónuveirufaraldurinn kom í veg fyrir mótahald. Þetta er því einn stærsti viðburður ársins í íslensku BJJ senunni. Keppt er án galla (nogi) og er hægt að vinna með uppgjafartaki eða á stigum.
87 keppendur frá 6 félögum eru skráðir til leiks í ár og er þetta næstmesti fjöldi keppenda í sögu mótsins. Sterkir keppendur eru skráðir til leiks á mótið á borð við Kristján Helga Hafliðason, Bjarka Þór Pálsson, Önnu Soffíu Víkingsdóttur, Valentin Fels, Ómar Yamak, Halldór Loga Valsson, Ingu Birnu Ársælsdóttur, Magnús Inga Ingvarsson og svo mætti lengi telja. Það má því búast við harðri keppni í sterkum flokkum á laugardaginn.
Keppt er í fimm þyngdarflokkum karla og þremur kvenna auk opinna flokka.
Opinn flokkur karla
+99 kg karla
-99 kg karla
-88 kg karla
-77 kg karla
-66 kg karla
Opinn flokkur kvenna
+70 kg kvenna
– 70 kg kvenna
– 60 kg kvenna
Mótið hefst kl. 11 í húsakynnum Mjölnis en einnig verður mótinu streymt í gegnum Youtube síðu Mjölnis. Hægt er að fylgjast með gangi mála á Smoothcomp.com á keppnisdegi.