Saturday, April 27, 2024
HomeErlentHinn fullkomni Sage Northcutt

Hinn fullkomni Sage Northcutt

Sage-Northcutt-UFN-80-Post-Press-03Sage Northcutt hefur hlotið mikla athygli síðan hann kom fyrst í UFC í október. Þessi 19 ára strákur er yngsti bardagamaðurinn í UFC og gæti átt mikla framtíð fyrir sér í UFC.

Sage Northcutt hefur komið inn í UFC með hvelli. Hann gjörsigraði Francisco Trevino á aðeins 57 sekúndum og sigraði svo Cody Pfister fyrir viku síðan með „guillotine“ hengingu í 2. lotu.

Það er ekki að ástæðulausu sem Sage Northcutt er stundum nefndur Ken í höfuðið á dúkkunni frægu. Hann er með skjannahvítt bros og lítur út eins og ofurhetja. Vöðvar hans líta út fyrir að vera með vöðva.

Á yfirborðinu kemur hann úr fyrirmyndar fjölskyldu í Texas, strangtrúuð fjölskylda og sakleysið uppmálað. Uppeldi Sage var þó ekki eins og hjá flestum krökkum.

Sage byrjaði ungur að æfa karate og þegar hann var fimm ára lét pabbi hans hann gera 250 magaæfingar og armbeygjur á hverjum degi. Þegar hann var sjö ára gamall var hann kominn upp í 1000. Hann borðaði aldrei nammi og fylgdi fyrirmælum pabba síns Mark í einu og öllu.

Í dag er pabbi hans enn viðloðinn æfingarnar hans og er hann sagður stjórna drengnum. Eftir sigur í sínum fyrsta UFC bardaga fékk Sage boð um að koma og æfa hjá Tristar í Kanada. Þrátt fyrir að þar megi finna marga af virtustu þjálfurum í bransanum var Mark enn að stjórna. Sagan segir að Mark sé aldrei lengra en nokkra metra frá Sage á meðan hann æfir og einn daginn stoppaði hann Sage á miðri æfingu þar sem hann sagði að strákurinn væri búinn að æfa nóg.

Mark var sjálfur lengi í karate og síðar í vaxtarrækt og á vafasama fortíð. Hann var þekktur sterasali á 9. áratugnum og þá var hann handtekinn með 21 kg af kókaíni.

sage northcutt cody

Sjálfur er Sage ekkert nema sakleysið uppmálað. Hann er óþolandi kurteis og ávarpar alla Sir eða Mister. Það var skemmtilega einlægt að sjá hann þakka „Mr. White og Mr. Fertitta“ fyrir tækifærið eftir sigur Sage á fimmtudaginn. Sage blótar aldrei og þegar Cody Pfister sagði Sage líta út fyrir að nota stera brást hann ekki illa við heldur þakkaði hann Pfister fyrir hrósið. Það er stundum eins og hann sé hvolpur. Honum finnst allt æðislegt og er alltaf glaður.

Auk þess að borða ekki nammi var Sage sagður aldrei hafa farið á netið. Á blaðamannafundinum eftir bardagann gegn Pfister hló hann að þessum sögum. Auðvitað hefur hann notað netið, hann þarf að nota það fyrir skólann!

Sage er ekki bara efnilegur bardagamaður heldur er hann einnig frábær námsmaður. Hann stundar nám við hinn virta Texas A&M háskóla þar sem hann nemur verkfræði. Það er gríðarlega erfitt að komast inn í skólann og enn erfiðara að halda fullkomnum einkunnum líkt og Sage gerir. Á fyrsta ári hans í náminu hafði hann lítinn tíma til að æfa og því hefur hann nú minnkað við sig í náminu til að geta einnig einbeitt sér að bardagaferlinum.

Sage hefur aðeins barist sjö bardaga í MMA og klárað þá alla í 1. eða 2. lotu. Hann er gríðarlega efnilegur en enn hrár eins og sást í síðasta bardaga. Það er svo sem ekki skrítið enda hefur Sage barist sjö bardagana sína á 20 mánuðum.

Sage virðist eiginlega vera of fullkominn. Hann er kurteis, kemur vel fyrir, er góður námsmaður, með útlitið með sér og er efnilegur bardagamaður.

Kannski er Sage hinn fullkomni strákur sem tekur alltaf réttar ákvarðanir og á í góðu sambandi við föður sinn. Margir telja þó að undir yfirborðinu sé ekki allt eins og það sýnist. Telja efasemdarmenn að stjórnsemi föðursins sé óheilbrigð og einn daginn muni Sage fá nóg og vera gripinn með kókaín og vændiskonur í bakherbergi á vafasömum skemmtistað.

Slíkar vangaveltur eru þó enn ótímabærar enda virðist Sage hafa heiminn að fótum sér. Með réttri þjálfun gæti hann farið ansi langt. Firas Zahabi, yfirþjálfari hjá Tristar, segist ekki hafa séð jafn efnilegan bardagann frá því hann sá Georges St. Pierre fyrst. Það sást þó í bardaganum gegn Pfister að Northcutt á enn margt ólært ætli hann sér að komast á toppinn.

Ljúkum þessari grein á Sage að vera Sage.

 

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

1 COMMENT

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular