Björn Lúkas Haraldsson er kominn áfram í undanúrslit á Heimsmeistaramóti áhugamanna í MMA. Björn Lúkas mætir Ástralanum Joseph Luciano.
29 bardagamenn hófu leik í millivigt og eru nú aðeins fjórir eftir. Þar á meðal er Björn Lúkas okkar en hann komst í undanúrslit í dag með sigri á Stacy Waikato með armlás í 1. lotu. Björn Lúkas hefur þar með unnið þrjá bardaga á þremur dögum og klárað þá alla í 1. lotu.
Ástralinn Joseph Luciano (7-2) verður andstæðingur Björns á morgun en hann hefur farið í gegnum sterka andstæðinga á mótinu til þessa. Í dag sigraði hann Darion Weeks (11-2) frá Bandaríkjunum en sá bandaríski þótti sigurstranglegur fyrir mótið. Luciano hefur tvisvar farið allar þrjár loturnar á mótinu en einu sinni klárað bardaga í 2. lotu.
Á sama tíma hefur Björn Lúkas bara verið fljótari og fljótari að klára sína bardaga. Það tók hann 2:08 að klára fyrsta bardagann með armlás, 1:32 að klára Írann með tæknilegu rothöggi og svo var hann ekki nema 1:12 með andstæðinginn í dag.
Björn hefur náð frábærum árangri til þessa en hann ætlar sér alla leið.