spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaHM 2018: Aftur tveir sigrar og tvö töp

HM 2018: Aftur tveir sigrar og tvö töp

Öðrum degi á Heimsmeistaramóti áhugamanna í MMA var að ljúka. Þar voru fjórir Íslendingar sem kepptu og var niðurstaðan tveir sigrar og tvö töp rétt eins og í gær.

Heimsmeistaramót International MMA Federation (IMMAF) fer fram í Barein þessa dagana en fyrsti keppnisdagur var í gær. Í dag kepptu þau Ingibjörg Helga Arnþórsdóttir (ISR Matrix), Kári Jóhannesson (Mjölnir), Björn Þorleifur Þorleifsson (Mjölnir) og Halldór Logi Valsson (Mjölnir).

Ingibjörg Helga, betur þekkt sem Imma, keppti sinn fyrsta bardaga á mótinu í morgun. Imma (1-1 fyrir bardagann) keppir í 52 kg strávigt og mætti Amy O’mara (5-4 fyrir bardagann) frá Englandi. Imma átti frábæra frammistöðu og átti bardagann frá A til Ö. Imma lenti nokkrum þungum höggum í O’mara og var bardaginn ekki langt frá því að vera stöðvaður í 2. lotu. O’mara tókst þó að lifa af en það var aldrei spurning hvor megin sigurinn færi eftir loturnar þrjár. Imma sigraði því eftir dómaraákvörðun og er komin áfram í 8-kvenna úrslit. Á morgun mætir hún Nurzhamal Sadykova frá Kasakstan en Sadykova sat hjá í fyrstu umferð í dag. Sadykova var Asíumeistari í strávigtinni fyrr í sumar.

Næstur af íslensku keppendunum var Kári Jóhannesson sem keppir í veltivigt. Kári átti frábæra frammistöðu í gær þegar hann sigraði Tomáš Pertl (6-0 fyrir bardagann) og var það fyrsti áhugamannabardagi Kára. Í dag mætti hann Isakov Isa frá Belgíu (12-2 fyrir bardagann). Isa var töluvert reynslumeiri en Kári en hann tók silfur á Evrópumótinu fyrr í sumar. Kári sýndi lipra takta standandi en Isa tók hann niður í 1. lotu. Isa reyndi að ná „keylock“ en Kári varðist vel og tókst að koma sér úr stöðunni. Í 2. lotu náði Isa aftur fellu en í þetta sinn kláraði hann Kára með armlás eftir 2:40 í 2. lotu. Fín frammistaða hjá Kára en Isa einfaldlega betri bardagamaður.

Björn Þorleifur Þorleifsson mætti Þjóðverjanum Waldemar Holodenko í dag í millivigt. Það tók Björn aðeins 12 sekúndur að klára bardaga sinn í gær en bardaginn í dag var ekki eins auðveldur. Björn notaði spörkin sín vel en voru ekki að lenda eins vel og þau gerðu í gær. Þess í stað notaði hann hendurnar og glímuna meira en hann er vanur að gera sem gekk vel. Þjóðverjinn reyndi að taka Björn niður en Björn varðist vel. Í 3. lotu tókst Holodenko að ná Birni niður en Björn endaði strax ofan á. Þar náði hann að klára með „arm-triangle“ hengingu í 3. lotu. Björn er því kominn áfram í 8-manna úrslit og mætir öflugum andstæðingi á morgun – Ítalanum Dario Bellandi. Bellandi er 11-1 sem áhugamaður og var Evrópumeistari áhugamanna 2017 og 2018! Bellandi er einn af þeim sigurstranglegustu í flokknum og myndi sigur hjá Birni vera alvöru yfirlýsing.

Síðastur af Íslendingunum var Halldór Logi Valsson. Halldór keppti í léttþungavigt og mætti Olzhobai Kudaiberdi uulu frá Kyrgistan. Halldór tapaði eftir tæknilegt rothögg í 2. lotu og er því úr leik.

Það verða því bara Björn Þorleifur og Ingibjörg í eldlínunni á morgun en dagskrá bardaganna er væntanleg síðar í kvöld.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular