Wednesday, April 17, 2024
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Korean Zombie vs. Rodríguez

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Korean Zombie vs. Rodríguez

Yair Rodriguez með rothögg ársins gegn Korean Zombie

UFC Fight Night 139 fór fram um helgina í Denver, Colorado. Viðburðurinn var 25 ára afmælisviðburður samtakanna en UFC 1 var haldið 12. nóvember 1993. Hér eru Mánudagshugleiðingar eftir bardagakvöldið.

Það var skemmtileg umgjörð í kringum bardagakvöldið og mikið lagt í að minnast uppruna UFC. Margar af helstu stjörnum UFC 1 á borð við Art Jimmerson (sem sat í salnum með risavaxinn boxhanska á einni hendi) auk annarra goðsagna á borð við Dan Severn og Matt Hughes voru mættir til þess að fagna þessum áfanga. Í miðju búrsins prýddi gamla UFC merkið dýnuna og kynningar á bardagamönnum voru í retró stíl, þar sem keppendur voru kynntir til leiks með einn ákveðinn bakgrunn eins og Jiu Jitsu líkt og var gert á UFC 1. Bardagakvöldið var haldið hinu megin við götuna frá höllinni sem hýsti fyrsta viðburð UFC en sú höll var rifin árið 2000 og þar er í dag ekkert nema bílastæði. Það skilaði okkur einu vandræðalegu viðtali við talskonu UFC sem stóð úti á miðju bílastæði með hljóðnema í beinni útsendingu.

Gamla UFC logoið prýddi miðju búrsins um helgina.

Í aðalbardaga kvöldsins átti Frankie Edgar að mæta kóreska uppvakningnum Chan Sung Jung en Edgar neyddist til að draga sig frá vegna meiðsla einungis þremur vikum fyrir bardagann. Yair Rodriguez kom því inn í fimm lotu aðalbardaga kvöldsins með skömmum fyrirvara og á heiður skilið fyrir góða frammistöðu en hann var að snúa aftur eftir 18 mánaða fjarveru í búrinu. Auk þess greindi Rodriguez frá því í viðtalinu eftir bardagann að hann hafi slasað sig á fæti eftir spark í fyrstu lotu og gat hann vart stigið í fótinn eftir bardagann. Grjótharður hann Rodriguez.

Korean Zombie var að vinna bardagann samkvæmt dómurunum en þegar ein sekúnda var eftir í fimmtu lotu rotaði Rodriguez hann með einhverju sem leit út eins og atriði úr Matrix – algjörlega ótrúlegt rothögg og ég leyfi mér að fullyrða að Yair Rodriguez sé eina manneskjan í MMA í dag sem hefði reynt svona tækni á síðustu mínútu bardagans – hvað þá tekist að rota einhvern með henni. Sjá myndband af rothögginu hér. Glæsileg endurkoma hjá Rodriguez eftir langa fjarveru og er í raun ótrúlegt að UFC hafi verið tilbúið að láta hann fara fyrr á þessu ári. Rodriguez er bara 26 ára og gæti alveg unnið sig upp í titilbardaga en þó hann geri það ekki má fastlega gera ráð fyrir að hann haldi áfram að bjóða upp á mögnuð tilþrif eins og hann gerði um helgina.

Donald Cerrone mætti fyrrum liðsfélaga sínum ‘Platinum’ Mike Perry. Það var talsvert drama í aðdraganda bardagans þar sem Cerrone vildi meina að honum hefði verið bolað út úr Jackson-Wink MMA. Cerrone segir að Mike Winkeljohn hafi hringt í sig og tilkynnt sér að hann væri ekki lengur velkominn í Jackson-Wink og að liðið væri búið að ákveða að velja Perry umfram sig. Það var augljóst að Cerrone var létt þegar hann kláraði Perry í fyrstu lotu með armlás eftir frábæra frammistöðu í gólfinu. Það var greinilega himinn og haf á milli þeirra tveggja í gólfinu en eftir að Perry lent í góðri toppstöðu snemma í bardaganum tókst Cerrone að snúa stöðunni við á glæsilegan hátt og eftir það var þetta einstefna.

Með sigrinum varð Cerrone sá einstaklingur sem hefur klárað flesta UFC bardaga, alls 16 talsins en með því tók hann fram úr Anderson Silva og Vitor Belfort. Hann varð sömuleiðis sigursælasti bardagamaður í sögu UFC með 21 sigur. Þeir Michael Bisping og Georges St. Pierre áttu metið með 20 sigra en nú trónir Cerrone í toppsætinu – mjög við hæfi á 25 ára afmæli samtakanna.

Hin tvítuga Maycee Barber pakkaði andstæðing sínum, Hönnuh Cifer, saman og það má telja líklegt að hún komi til með að blanda sér í toppbaráttuna í strávigtinni á komandi árum. Með sigrinum er Barber komin í 6-0 og sýndi mikla yfirvegun í bardaganum – í raun leit hún út eins og einhver með miklu meiri bardagareynslu en raun ber vitni. Barber hefur lýst því yfir að hún ætli sér að verða yngsti meistari í sögu UFC og er með niðurtalningu á símanum sínum sem er stilltur á 17. janúar 2022. Það er dagurinn þar sem hún verður degi eldri en Jon Jones var þegar hann varð yngsti UFC meistarinn, aðeins 23 ára. Hvort henni takist það verður tíminn að leiða í ljós en miðað við frammistöðuna á laugardaginn virðist hún svo sannarlega standa undir bardaganafninu sínu ‘The Future’.

UFC er aftur með bardagakvöld næstu helgi þegar bardagasamtökin heimsækja Argentínu í fyrsta sinn. Þar mætir Santiago Ponzinibbio hinum bandaríska Neil Magny.

Guttormur Árni Ársælsson
Guttormur Árni Ársælsson
-Pistlahöfundur -Fjólublátt belti í BJJ -Lýsi UFC á Viaplay þegar Pétur hefur eitthvað merkilegra að gera
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular