Tuesday, July 16, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaHM 2018: Tveir sigrar og tvö töp á fyrsta keppnisdegi

HM 2018: Tveir sigrar og tvö töp á fyrsta keppnisdegi

Íslendingar hafa lokið keppni í dag á fyrsta keppnisdegi Heimsmeistaramóts áhugamanna í MMA. Fjórir Íslendingar kepptu í dag og var niðurstaðan tveir sigrar og tvö töp.

Heimsmeistaramót áhugamanna fer fram í Barein þessa dagana og eru sex íslenskir keppendur skráðir til leiks á mótið. Fjórir Íslendingar kepptu í dag (allir frá Mjölni) á meðan tveir keppendur sátu hjá.

Fyrstur af Íslendingunum á mótinu í ár var Oliver Axfjörð Sveinsson. Hann keppti á HM unglinga (18-20 ára) í fjaðurvigt (66 kg) og mætti Louis Lee Scott frá Englandi. Því miður tapaði Oliver með tæknilegu rothöggi eftir 2:59 í 1. lotu. Scott er 9-0 sem áhugamaður í MMA á meðan þetta var fyrsti áhugamannabardagi Olivers. Þá er Lee 47-5-2 í Muay Thai og var því töluverður reynslumunur á þeim.

 

View this post on Instagram

 

First win out of the way, vs NZ tomorrow #IMMAF2018 #UKMMAF

A post shared by ⚡️Louis Lee Scott⚡️ (@louislightning) on

Næstur af Íslendingunum var Ásgeir Marteinsson. Hann keppti í 61 kg bantamvigt en þetta var einnig hans fyrsti MMA bardagi. Ásgeir mætti Jonny Touma frá Svíþjóð (2-3 fyrir bardagann samkvæmt Tapology) en tapaði eftir tæknilegt rothögg eftir 1:22 í 1. lotu.

Sá þriðji í röðinni var Kári Jóhannesson í veltivigt (77 kg). Hann mætti Tomáš Pertl frá Tékklandi en Pertl var sagður vera 11-4 fyrir bardagann á meðan þetta var fyrsti MMA bardagi Kára (Pertl er þó bara 6-0 samkvæmt Tapology gagnagrunninum). Bardaginn var mjög jafn og spennandi. Pertl reyndi að taka Kára niður en Kári varðist vel. Pertl fór þá í fótalás og aftur varðist Kári vel og náði sjálfur þungum höggum ofan á í gólfinu. Pertl náði Kára niður í 2. lotu en komst svo sjálfur á bak andstæðingsins. Kári reyndi að klára „rear naked choke“ og var ekki langt frá því en Pertl varðist vel og kláraðist lotan.

Í 3. lotu mátti sjá að Pertl var orðinn vel þreyttur en Kári var ferskari. Kári náði ágætis höggum og spörkum í standandi viðureign en enn einu sinni fór Pertl í fellu. Pertl náði fellunni en náði ekki að gera mikinn skaða. Kári fór svo í „guillotine“ hengingu í lok 3. lotu en náði ekki að klára. Bardaginn fór því í dómaraákvörðun þar sem Kári sigraði eftir klofna dómaraákvörðun. Frábær frammistaða hjá Kára gegn mun reyndari andstæðingi. Kári er því kominn áfram og mætir Isakov Isa frá Belgíu á morgun. Isa vann sinn bardaga í dag með tæknilegu rothöggi í 1. lotu og er 12-2 samkvæmt Tapology og tók silfur á Evrópumótinu í MMA í sumar.

Fjórði og síðasti keppandinn var Björn Þorleifur Þorleifsson. Björn keppir í millivigt en hann mætti Aravind Veeranna (3-0 fyrir bardagann) frá Indlandi. Það tók Björn aðeins 12 sekúndur að klára Veeranna! Björn er þekktur fyrir rosaleg spörk og má gera ráð fyrir að Björn hafi smellhitt snemma. Björn mætir Þjóðverjanum Waldemar Holodenko (1-1) á morgun en Holodenko vann sinn bardaga með „triangle“ hengingu eftir 55 sekúndur í dag. Báðir ættu því að vera vel ferskir fyrir morgundaginn.

Eins og áður segir eru þeir Björn og Kári komnir áfram í 16-manna úrslit á morgun. Halldór Logi Valsson (Mjölnir) og Ingibjörg Helga Arnþórsdóttir (Týr) sátu hjá í dag en þau keppa fyrst á morgun. Halldór keppir í léttþungavigt og mætir Olzhobai Kudaiberdi uulu frá Kyrgistan á morgun. Olzhobai sigraði Svíann Robin Larson í dag eftir dómaraákvörðun og á meðan Halldór gat tekið því rólega. Ingibjörg mætir svo Amy O’Mara frá Bretlandi á morgun í strávigt kvenna en þá fer fyrsta umferð fram í þyngdarflokknum.

Mikið basl var á streyminu í dag frá mótinu. Upphaflega var sagt að allir bardagarnir yrðu sýndir á IMMAF.TV en svo var ekki. Aðeins tvö keppnisbúr voru sýnd og fengum við því ekki að sjá sigurinn hjá Birni. Vonandi mun útsendingin virka betur á morgun.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular