0

Hugleiðingar eftir UFC 219

UFC 219 fór fram fyrir nokkrum dögum síðan. Þar sáum við Cris ‘Cyborg’ Justino sigra Holly Holm eftir dómaraákvörðun í hörku bardaga. Hér koma smá hugleiðingar um bardagakvöldið örlítið seinna en vanalega.

Cyborg meira en bara vélmenni

Síðasta bardagakvöld ársins var ekkert stórkostleg skemmtun. Átta af tíu bardögum kvöldsins enduðu í dómaraákvörðun og var fátt um fína drætti. Síðustu tveir bardagarnir voru þó skemmtilegir.

Cris ‘Cyborg’ sýndi að hún er meira en bara einhver yfirgangsseggur sem veður yfir minnimáttar. Hún var vissulega stærri en Holm en Cyborg sýndi að hún væri einfaldlega betri bardagakona yfir loturnar fimm. Á síðustu árum hefur hún þróast frá því að vera bara jarðýta yfir í að vera tæknilega öflug bardagakona.

Bardaginn var nokkuð jafn framan af og við fyrstu sýn virtist Holm vera að vinna fyrstu tvær loturnar (tveir dómarar voru sammála því). Þegar tölfræðin er skoðuð má þó sjá að Cyborg var að hitta talsvert fleiri höggum en Holm í öllum lotunum. Cyborg sýndi líka að hún getur vel farið fimm lotur og var þolið hennar bara mjög gott í 5. lotu.

Holly Holm byrjaði nokkuð vel en flétturnar hennar voru allar fremur svipaðar og var Cyborg farin að lesa allt sem Holm gerði. Holm gekk betur í „clinchinu“ en maður þorði að vona. Þrátt fyrir að vera minni var Holm ekki að leyfa Cyborg að stjórna sér. Hún leit út fyrir að vera mjög líkamlega sterk í „clinchinu“ en vantaði kannski að gera eitthvað meira með stöðuna. Það var eins og Holm hefði ekki trú á að hún gæti tekið Cyborg niður. Izzy Martinez, glímuþjálfari Holm, sagði Holm að hafa trú á fellunum sínum í horninu eftir 2. lotuna en eitthvað vantaði upp á hjá Holm.

Embed from Getty Images

Khabib minnir á sig

Sama hvað Conor McGregor segir þá átti Khabib Nurmagomedov geggjaða frammistöðu gegn Edson Barboza. Hann hreinlega valtaði yfir hann og var aldrei í vandræðum. Þegar Khabib loksins getur barist er hrein unun að horfa á hann. Hann setur upp mikinn hraða í bardögum sínum og brýtur menn niður með ótrúlegri pressu. Geggjað að horfa á hann og gaman að hlusta á hann í viðtölum eftir bardagann.

Nú er stóra spurningin, hvað næst? Þríeykið Conor McGregor, Tony Ferguson og Khabib verða einhvern veginn að berjast. Það er eiginlega sama hver mætir hverjum, allt verða það geggjaðir bardagar. Conor er enn léttvigtarmeistari og vonandi líður ekki á löngu þar til hann ver titilinn. Ef Conor ætlar ekkert að berjast fyrr en næsta sumar (líkt og Dana White sagði á dögunum) gæti svo farið að Tony Ferguson og Khabib mætist um bráðabirgðarbeltið.

Eins fáranlegt og það er að láta tvo menn berjast um bráðabirgðarbeltið á meðan alvöru meistarinn er heill heilsu, þá er þetta sennilega eitthvað sem verður að gerast (ef UFC ætlar ekki að svipta Conor og hann bíður til sumarsins). Þeir Khabib og Ferguson eru of góðir til að sitja og bíða eftir Conor.

Embed from Getty Images

Diakese og Calvillo valda vonbrigðum

Marc Diakiese átti einfaldlega hörmulega frammistöðu gegn Dan Hooker. Þetta var risastórt tækifæri fyrir hann að skapa sér stærra nafn en hann klúðraði því. Diakiese tók margar slæmar ákvarðanir í bardaganum en enga eins slæma og í 3. lotu þegar hann ákvað að skjóta í fellu. Diakiese tapaði fyrstu tveimur lotunum og þurfti að klára Hooker í 3. lotu til að vinna. Hornið sagði skýrt og greinilega við hann; „ekki fara í fellur“. Diakiese byrjaði lotuna mjög vel og var aggressívur standandi. Hann náði nokkrum mjög góðum höggum inn og var að byrja lotuna frábærlega. Þangað til hann skaut í fellu. Hooker var ekki lengi að grípa um hálsinn á Diakiese og kláraði hann með hengingu. Hræðilega vitlaus ákvörðun hjá Marc Diakiese og hefur hann nú tapað tveimur bardögum í röð eftir góða byrjun.

Embed from Getty Images

Cynthia Calvillo náði ekki að enda árið 2017 með stæl. Hún vann 1. lotuna með yfirburðum en tókst ekki að gera það sama við seinni tvær loturnar. Carla Esparza sigraði því eftir einróma dómaraákvörðun. Calvillo var öskuill með niðurstöðuna en það gerir ekkert fyrir hana að pirra sig yfir því. Bardaginn var mjög jafn og þarf hún bara að horfa á bardagann aftur til að sjá hvað gekk vel og hvað hún þarf að laga. Fyrsta tapið sem atvinnumaður staðreynd og þarf hún bara að halda áfram að bæta sig, sérstaklega í standandi viðureign, ef hún ætlar að ná markmiðum sínum og verða meistari. Niðurstaðan úr þessum eina bardaga mun ekki skipta miklu máli til lengri tíma litið. Það sem skiptir meiru máli er hvað hún ætlar að gera við reynsluna úr þessum bardaga.

Árinu 2017 lokið og verður fyrsta UFC kvöld ársins sunnudaginn 14. janúar þegar Jeremy Stephens mætir Doo Hoi-Choi í aðalbardaga kvöldsins.

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is

-Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ)
-BS í sálfræði
-Lýsi UFC á Stöð 2 Sport
-MMA fíkill
Pétur Marinó Jónsson

Comments

comments

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.