Tuesday, September 10, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentÓskalisti Óskars: 10 bardagar sem við viljum sjá árið 2018

Óskalisti Óskars: 10 bardagar sem við viljum sjá árið 2018

Í fyrra birtum við óskalista yfir bardaga á árinu sem var að líða. Við fengum að sjá fimm af þeim tíu sem þá voru á listanum sem hlýtur að þýða að Dana White láti snara greinum MMA Frétta yfir á ensku fyrir sig.

Listann frá því í fyrra má finna hér en nú þurfum við að líta fram á við til 2018.

 

 

10. Alexander Gustafsson gegn sigurvegaranum af Daniel Cormier gegn Volkan Oezdemir

Þessi bardagi verður að teljast mjög líklegur, sama hver vinnur á UFC 220. Alexander Gustafsson átti eftirminnilegan bardaga við DC árið 2015 og er efstur á styrkleikalista UFC. Kannski verður árið 2018 árið sem Svíinn viðkunnanlegi fær loksins belti um mittið.

9. Max Holloway gegn Brian Ortega

Frankie Edgar átti að mæta Max Holloway í desember en því miður meiddist Edgar og missti af tækifærinu. Sennilega fær Edgar annað tækifæri en ég myndi frekar vilja sjá hinn unga og ósigraða Brian Ortega spreyta sig. Ortega afgreiddi Cub Swanson með glæsibrag í desember og gæti verið efni í stjörnu.

8. Valentina Shevchenko gegn Joanna Jedrzejczyk

Þessar tvær hafa nýlega tapað titilbardaga í sínum þyngdarflokki en hafa talað um að færa sig yfir í fluguvigt. Þær hafa áður barist í þrígang í sparkboxi þar sem Shevchenko hafði vinninginn í öll skiptin. Best væri ef þær myndu mætast í fimm lotu bardaga og sigurvegarinn fengi að skora á meistarann.

7. Chris Weidman gegn sigurvegaranum af Robert Whittaker gegn Luke Rockhold

Það var stórkostlegt að sjá Robert Whittaker sigra skrímslin Yoel Romero og Jacare Souza í fyrra. Ef hann kemst í gegnum Luke Rockhold verður hann hreinlega að berjast við Weidman næst. Ekki er langt síðan þessir fjórir voru taldir þeir langbestu í þyngdarflokknum. Það yrði magnað ef Whittaker nær að sigra þá alla. Luke Rockhold er hins vegar líkleglegur til að skemma teitið hjá Whittaker en allt þetta gerir millivigt að einum mest spennandi þyngdarflokknum í dag.

6. Demetrious Johnson gegn T.J. Dillashaw

Eftir að hafa slegið metið yfir flestar titilvarnir á Demetrious Johnson skilið stóran bardaga og þetta er bardaginn sem allir vilja sjá. Fyrir T.J. Dillashaw er þetta tækifæri til að vinna belti í nýjum þyngdarflokki og mögulega sigra besta bardagamann í heimi, pund fyrir pund.

5. Gunnar Nelson gegn Robbie Lawler

Eftir vonbrigðin á síðasta ári viljum við sjá Gunnar Nelson taka árið 2018 með trompi. Besta leiðin til að koma sér á beinu brautina er gegn stóru nafni og Robbie Lawler væri fullkominn í það hlutverk. Lawler er auðvitað fyrrverandi meistari og goðsögn í MMA. Hann er nýbúinn að tapa svo hann er líklegur til að berjast niður fyrir sig á styrkleikalistanum.

4. Tony Ferguson gegn Khabib Nurmagomedov

Enginn veit hvað Conor McGregor mun gera eða hvenær nákvæmlega hann muni berjast (ef hann snýr þá aftur). Þrívegis hafa þeir Tony Ferguson og Khabib Nurmagomedov átt að mætast en aldrei hefur þeim tekist að fara í búrið. Ef Conor er ekki að fara að berjast á næstunni er þetta bardagi sem við hreinlega verðum að fá að sjá á árinu.

3. Cain Velasquez gegn sigurvegaranum af Stipe Miocic og Francis Ngannou

Það hefur verið grátlegt að horfa upp á feril Cain Velasquez undanfarin ár. Hann barðist ekkert árið 2014, einu sinni árið 2015, einu sinni árið 2016 og ekkert 2017. Hann var aftur frá allt árið í fyrra og er nú orðinn 35 ára gamall. Það væri æðislegt að sjá gamla „sea level“ Cain snúa aftur með látum á árinu og minna hressilega á sig. Það er nú eða aldrei.

2. Georges St. Pierre gegn Tyron Woodley

Þessi verður að teljast ólíklegur. Enginn veit hvort St. Pierre sé endanlega hættur eða hvort hann geti náð 170 punda flokknum ennþá. Það væri hins vegar gaman að sjá kanadíska stórstirnið reyna að endurheimta gamla titilinn.

1. Conor McGregor gegn Tony Ferguson

Við grátbiðjum MMA guðina að hafa vit fyrir Conor McGregor. Við viljum ekki sjá hann aftur í hnefaleikahringnum og beltið í léttvigt þarf að verja. Tony Ferguson er eini bardaginn sem vit er í fyrir McGregor. Eftir það má sigurvegarinn gjarnan berjast við Khabib Nurmagomedov ef það er ekki til of mikils ætlast.

spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular