spot_img
Sunday, November 17, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentHvað er svona merkilegt við endurkomu GSP?

Hvað er svona merkilegt við endurkomu GSP?

Annað kvöld snýr Georges St. Pierre aftur í búrið eftir fjögurra ára fjarveru. En hvað er svona merkilegt við þennan mann og  endurkomu hans?

Georges St. Pierre (GSP) var einfaldlega kóngurinn á sínum tíma. Fyrir tíma Rondu Rousey og Conor McGregor var GSP söluhæsta og stærsta stjarna UFC. Eftir umdeildan sigur á Johny Hendricks á UFC 167 í nóvember 2013 ákvað GSP óvænt að taka sér hlé frá íþróttinni og láta beltið af hendi. Pressan sem fylgdi því að vera meistari reyndist of mikil fyrir GSP og þá var hann ekki sáttur með ábótavant lyfjaeftirlit hjá UFC.

Síðan þá hefur hann slakað á, æft sér til gamans og USADA komið inn með talsvert hertari lyfjaeftirlit. Hann er því tilbúinn til að snúa aftur og gerir það nú í nýjum þyngdarflokki sem hann hefur aldrei barist í.

Einn sá besti frá upphafi

Georges St. Pierre er einfaldlega einn besti bardagamaður í sögu MMA. Hann vann vissulega marga bardaga á dómaraákvörðun en yfirburðir hans voru magnaðir. Að auki hefur hann aldrei fallið á lyfjaprófi en það sama er ekki hæg að segja um aðra sem taldir eru með þeim bestu frá upphafi (Anderson Silva, Jon Jones).

GSP á mörg metin. Hann á næstflesta sigra í sögu UFC (19 talsins en aðeins Michael Bisping er með fleiri), næstlengstu meistaratignina (2064 dagar), enginn hefur unnið fleiri titilbardaga en hann, enginn hefur klárað fleiri fellur en hann og hefur hann klárað 74% fellna sinna sem er einnig met. Hann hefur unnið 12 bardaga í röð og hefnt fyrir bæði töpin sín á ferlinum.

GSP var líka mikill frumkvöðull. Hann var einn af þeim fyrstu til að fá sérstaklega til sín æfingafélaga og ferðaðist um til að æfa með þeim bestu. GSP æfði með kanadíska landsliðinu í ólympískri glímu til að bæta hæfni sína þar, hann ferðaðist mikið til New York til að æfa með John Danaher og öllum frábæru glímumönnunum þar og fór oft til Los Angeles til að æfa hjá boxþjálfaranum goðsagnarkennda Freddie Roach. Á morgun mun Roach vera í horninu hans í fyrsta sinn og John Danaher verður á sínum stað í horninu.

Eftir tapið gegn Matt Serra leitaði GSP til íþróttasálfræðings en á þeim tíma var enginn að nýta sér íþróttasálfræði í MMA og var hálfgert tabú í íþróttinni. GSP var líka einn af þeim fyrstu sem mætti í jakkafötum á blaðamannafundi en ekki bara í Tapout jogging gallanum eins og flestir gerðu á þeim tíma.

Hætti á toppnum

GSP var 32 ára gamall þegar hann tók sér pásu frá MMA. Þetta hefði í raun verið fullkominn tími til að hætta í MMA en afar sjaldséð er að sjá bardagamenn hætta áður en þeir byrja að tapa og tapa (Chuck Liddell, BJ Penn). GSP var farinn að dala og fatast flugið og voru því margir sem hefðu viljað sjá hanskana haldast upp á hillu.

Núna er hann 36 ára gamall og erfitt að sjá fyrir sér að hann sé betri bardagamaður í dag en hann var þá. Hann var ekki eins kvikur í síðustu bardögum sínum og fékk talsvert fleiri högg í sig en hann var vanur. 47% högganna sem hann hefur fengið í sig á ferlinum í UFC komu í síðustu þremur bardögunum hans. Þeir þrír bardagar fóru allir fram eftir að hann fór í krossbandsaðgerð. Nú hefur hann farið í aðra krossbandsaðgerð á hinu hnénu.

Annað kvöld mun hann stíga aftur í búrið og berjast – nokkuð sem hann hefur ekki gert í fjögur ár. Í desember 2011 sleit GSP krossband og var frá í um 18 mánuði. Þegar hann snéri aftur fannst honum hann vera ryðgaður í bardaganum gegn Carlos Condit. Hann talaði um áhrif „ring rust“ eftir sigurinn á Condit og á vafalaust eftir að finna fyrir því á morgun ef hann fann fyrir því eftir 18 mánaða fjarveru.

GSP var líka einn af þeim sem var alltaf virkilega hræddur fyrir bardaga sína og fór hann ekki leynt með það. Það var ekki sársaukinn sem hann óttaðist mest heldur óttinn við að tapa fyrir framan svo mörg andlit. Hann óttast ekki andstæðinginn heldur óttast hann að standast ekki væntingar. Sá ótti mun svo sannarlega vera til staðar er hann tekur síðustu skrefin í átt að búrinu á morgun.

Það er því ansi merkilegt að þessi maður sé að snúa aftur á morgun. Það er spurning hvernig hann kemur aftur á morgun og verður ansi forvitnilegt að sjá þennan magnaða bardagamann snúa aftur.

Bardagi GSP og Michael Bisping verður aðalbardaginn á UFC 217 annað kvöld en bardagakvöldið fer fram í Madison Square Garden í New York.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular