spot_img
Thursday, December 19, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentHvar stendur Anderson Silva í millivigtinni árið 2019?

Hvar stendur Anderson Silva í millivigtinni árið 2019?

anderson silvaUFC 234 fer fram á laugardaginn þar sem Anderson Silva mætir Israel Adesanya. Ekki ríkir sama spenna fyrir Anderson Silva eins og þegar hann var upp á sitt besta og er auðvelt að gleyma hans fyrri afrekum. En hvernig berst Anderson Silva árið 2019?

Þegar Anderson Silva stígur í búrið á laugardagsnótt (reyndar á sunnudagsmorgni í Ástralíu þar sem bardaginn fer fram) verða nánast upp á dag tvö ár síðan hann barðist síðast. Þá sáum við hann vinna Derek Brunson eftir dómaraákvörðun en sigurinn var síður en svo sannfærandi. Reyndar voru flestir á því að Brunson hefði unnið en sigurinn stendur enn.

Þetta var hans fyrsti löglegi sigur síðan í október 2012 þegar hann vann Stephan Bonner með gullfallegu hné. Í millitíðinni vann hann Nick Diaz en sá bardagi var síðar dæmdur ógildur eftir að Anderson Silva féll á lyfjaprófi.

Það var ekkert eins skemmtilegt eins og þegar Anderson Silva var upp á sitt besta. Þetta var bardagamaðurinn sem maður sagði öllum vinum sínum frá. „Þú verður að horfa á þetta“ sagði maður og sýndi klippur af Anderon. Hann var bara klikkaðslega góður og var hrein unun að horfa á hann í búrinu. Að horfa á hann berjast í beinni var eitthvað sem erfitt var að toppa enda beið maður alltaf eftir því að hann myndi gera eitthvað geðveikt.

Stundum gerðist það ekki (bardagar gegn Demian Maia, Thales Leities og Patrick Cote) en oftast sá maður ótrúleg tilþrif þar sem andstæðingarnir virtust jafn hissa og áhorfendur á því sem gerðist. Sparkið gegn Vitor Belfort, niðurlægingin gegn Forrest Griffin, hengingin í 5. lotu gegn Chael Sonnen, hnéspörkin gegn Rich Franklin – allt ótrúleg augnablik sem munu lengi vera í minnum höfð.

Þrátt fyrir öll ótrúlegu augnablikin sem Anderson Silva hefur boðið upp á hefur ekki verið mikill söknuður í hans tveggja ára fjarveru. Síðustu ár hafa verið ansi léleg hjá Silva og velta margir því fyrir sér hvers vegna hann sé ennþá að berjast.

Eftir fyrra tapið gegn Chris Weidman hvarf þessi ósigrandi ára sem Anderson bjó svo lengi yfir. Eftir tapið hefur hann verið hikandi, hægur, hakan farin og látið menn eins og Derek Brunson og Michael Bisping gera sér erfitt fyrir. Anderson hefði leikið sér að þeim þegar hann var upp á sitt besta en tíminn stendur ekki í stað og Anderson eldist eins og allir.

Auk þess hefur Silva fallið tvisvar á lyfjaprófi og var fyrra tilfellið sérstaklega vandræðalegt enda kenndi hann tælenskum risdrykk um sterana sem fundust í lyfjaprófinu. Miðað við hvernig hann berst í dag er líka eins og honum sé nett sama og sé bara að hafa gaman.

Á laugardaginn mætir hann Israel Adesanya sem er ein helsta vonarstjarnan í UFC í dag. Adesanya vann alla fjóra bardaga sína í UFC á síðasta ári og fékk þrjá frammistöðubónusa. Þetta er nafn sem margir telja að verði meðal þeirra stærstu á næstu árum.

Nú á að byggja upp nýju stjörnuna með því að sigra gömlu stjörnuna – klassísk hefð í bardagaíþróttum sem hefur ríkt frá því snemma á 19. öld. Bardaginn kom nokkuð á óvart þegar hann var fyrst tilkynntur og óttast margir að sjá hvað Adesanya muni gera við hinn 43 ára gamla Anderson Silva. Adesanya lék sér að Derek Brunson (sem Anderson var í vandræðum með) og þó svona „MMA stærðfræði“ sé ekki alltaf marktæk gefur það ákveðnar vísbendingar um hvar þeir standa í dag.

Það má samt ekki afskrifa Anderson Silva alveg stax. Hann hefur gefið okkur vott af snilld í sínum síðustu bardögum. Anderson var nokkrum sekúndum frá því að klára Michael Bisping í lok 3. lotu eftir fljúgandi hné, náði líka mjög vel tímasettu framsparki í bardaganum sem vankaði Bisping, meiddi Daniel Cormier með góðu sparki og getur því ennþá gert smá snilld. Það má því ekki alveg afskrifa hann og gæti hann mögulega komið Adesanya eilítið á óvart. Hugsanlega er Adesanya að vanmeta Anderson Silva og gæti orðið pirraður ef bardaginn er ekki að ganga eftir óskum. Við höfum áður séð vonarstjörnur falla á stóra prófinu þegar hlutirnir falla ekki með þeim.

Veðbankar eru að minnsta kosti ekki að gefa Anderson mikinn séns á sigri. Anderson hefur aldrei verið jafn ólíklegur til að vinna samkvæmt veðbönkum. Frammistaða hans á síðustu árum gefur til kynna að hann sé langt frá því að vera meðal þeirra bestu í millivigt UFC í dag. Samt mun sigurvegarinn á laugardaginn fá titilbardaga í millivigtinni að sögn Dana White, forseta UFC.

Vinsældir Anderson Silva í dag hafa svo sannarlega dvínað. Lyfjaprófin hafa spilað stóran sess í því og þá hafa furðuleg ummæli eins og þegar hann lýsti yfir áhuga á að berjast við Conor McGregor og óskaði eftir því að TRT yrði aftur leyft spilað inn í.

Maðurinn sem ríkti yfir millivigtinni frá 2006 til 2013 snýr aftur í búrið á morgun. Á Anderson Silva heima meðal þeirra bestu árið 2019? Flestir segja nei en það kemur í ljós á UFC 234.

Embed from Getty Images

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular