Friday, April 26, 2024
HomeErlentNokkrar ástæður til að horfa á UFC 234

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC 234

Á laugardagskvöldið fer fram bardagakvöld í Ástralíu. Titill verður varinn í millivigt og eitt heitasta nýstirnið fær vægast sagt áhugaverðan andstæðing. Hér eru nokkrar ástæður til að horfa á bardagakvöldið um helgina.

Whittaker fær nýjan andstæðing

Robert Whittaker er einn skemmtilegasti bardagamaður í UFC en bardagi helgarinnar er í fyrsta sinn sem hann mætir öðrum en Yoel Romero síðan í apríl árið 2017. Whittaker hefur unnið níu bardaga í röð og ver nú beltið í millivigt í raun í fyrsta sinn (Romero náði ekki vigt í seinni bardaga þeirra) gegn Kelvin Gastelum. Þetta er í annað sinn í sögunni þar sem titilbardagi er á milli manna sem báðir unnu The Ultimate Fighter en Forrest Griffin og Rashad Evans börðust um titilinn í léttþungavigt árið 2008. Þetta ætti að verða geggjaður bardagi enda Robert Whittaker einn skemmtilegasti meistarinn í UFC í dag og Kelvin Gastelum hefur átt frábæru gengi að fagna í millivigtinni.

Næsta súperstjarna mætir goðsögn

Aðalbardagi helgarinnar er Ástralinn Robert Whittaker að verja sinn titil á heimavelli en mesta umræðan hefur hins vegar verið um Israel Adesanya sem mætir sjálfum Anderson Silva. Adesanya er enn frekar nýr í UFC, aðeins með fjóra bardaga að baki í UFC en hann getur hins vegar tryggt sér titlbardaga með sigri á hinum 43 ára Anderson Silva. Þetta er mjög áhugaverður bardagi á pappír en það verður að koma í ljós hversu jafn hann verður. Israel Adesanya hefur verið að slátra mönnum en það hefur enginn klárað Silva síðan Chris Weidman gerði það árið 2013.

Rani Yahya að fá tækifæri

Það hefur lítið farið fyrir Rani Yahya í UFC. Þessi frábæri glímumaður er samt búinn að vinna sjö af síðustu átta bardögum sínum í UFC og klárað þrjá bardaga í röð. Yahya bað óvænt um titilbardaga eftir sinn síðasta sigur sem þótti auðvitað fráleitt. Það samt vakti athygli og er hann nú á aðalhluta bardagakvöldsins á ágætlega stóru kvöldi. Yahya mætir Ricky Simon (14-1) sem hefur unnið báða bardaga sína í UFC. Yahya vann síðasta bardaga á fótalás og verður áhugavert að sjá hvað hann gerir um helgina.

Hrottinn stígur í búrið

Hinn ástralski Jim „The Brute“ Crute er mjög efnilegur bardagamaður í léttþungavigt sem kom nýlega inn í UFC í gegnum áskorendaseríu Dana White. Stráksi er aðeins 22 ára gamall og fær um helgina að kljást við reynsluboltann Sam Alvey. Alvey er höggþungur og klókur bardagamaður og ætti að vera góð mælistika á gæði Crute á þessum tímapunkti ferilsins. Þessir menn munu láta höggin dynja svo útkoman ætti að verða góð skemmtun.

Bardagarnir fara fram á sunnudegi í Ástralíu en aðfaranótt sunnudags á Íslandi. Fyrsti bardagi kvöldsins byrjar kl. 23:30 á laugardagskvöld en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl. 3 og verður í beinni á Stöð 2 Sport.

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular