spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaHver er þessi Rick Story?

Hver er þessi Rick Story?

rick story 2Eins og við greindum frá á fimmtudaginn mun Gunnar Nelson mæta Rick Story í aðalbardaganum á UFC bardagakvöldi í Svíþjóð í október. Rick Story er 29 ára Bandaríkjamaður með mikla reynslu en fræðumst aðeins um kappann.

Rick Story hefur átt misjöfnu gengi að fagna í UFC. Eftir tap í hans fyrsta bardaga fór hann á frábæra sigurhrynu þar sem hann sigraði sex bardaga í röð. Á þessari sigurhrynu sigraði hann m.a. Johny Hendricks og Thiago Alves og var búist við miklu af Story þá. Á þeim tíma var Rick Story ekki á ósvipuðum stað á ferli sínum og Gunnar Nelson er á nú, á góðri sigurgöngu í veltivigt UFC og margir spáðu honum miklum frama og mögulegum titilhafa framtíðarinnar.

rick story hendricks 2

rick story hendricks 1
Rick Story er einn af tveimur sem hafa sigrað núverandi veltivigtarmeistarann Johny Hendricks.

Í júní 2011 mætti hann hins vegar Charlie Brenneman aðeins fjórum vikum eftir sigurinn á Alves. Brenneman kom inn í bardagann með aðeins dags fyrirvara þar sem Nate Marquardt féll á lyfjaprófi daginn fyrir bardagann. Því kom það mörgum verulega á óvart að Brenneman skyldi fara með sigur af hólmi og má segja að orðspor Story hafi beðið hnekki.

Eftir tapið gegn Brenneman hefur hann sigrað fjóra bardaga og tapað fjórum. Töpin eru flest gegn sterkum andstæðingum á borð við Demian Maia, Mike Pyle og Kelvin Gastelum.  Tapið gegn Gastelum var eftir klofinn dómaraúrskurð og hefði sigurinn geta dottið báðu megin. Tapið gegn Pyle var afar umdeild dómaraákvörðun þannig að með smá heppni gæti Story verið með sex sigra og tvö töp í síðustu átta bardögum sínum. Þess má geta að í bardaganum gegn Pyle var Rick Story að fylla í skarð Gunnars Nelson sem meiddist.

rick story mike pyle
Rick Story kýlir Mike Pyle niður.

Hann er í 15. sæti á styrkleikalista UFC (Gunnar er í því 12.) og hefur að vissu leiti fallið í hlutverk hliðavarðar (e. gatekeeper) inn á topp 10 í veltivigtinni. Þetta er hlutverk sem margir bardagamenn gegna og er ákveðin prófraun fyrir upprennandi bardagamenn. Sigri bardagamaður hliðvörð eins og Story eiga þeir bjarta framtíð og komast sennilega á topp 10. Með tapi þurfa bardagamenn að fara neðar í goggunarröðunina. Kelvin Gastelum, ungur veltivigtarmaður á uppleið, sigraði Rick Story í mars á þessu ári og stóðst þetta erfiða próf, mun Gunnar gera það líka?

Rick Story er langt frá því að vera með einstakan stíl, í rauninni er þessi stíll ótrúlega algengur í veltivigtinni. Hann er sterkur glímumaður sem setur pressu á andstæðinginn og er með góðar fellur. Leikáætlun hans felst í að taka andstæðinginn niður og berja hann þar. Höggin hans í gólfinu eru þung og til þess gerð að rota, ekki til að skora stig. Hann er afar kraftmikill og með mikinn sprengikraft sem hann nýtir í fellurnar. Á sama tíma er hann líka höggþungur þó hann sé ekki endilega tæknilegasti boxarinn í MMA.

Þó hann sé aðeins með fjóra sigra á ferilskránni eftir rothögg hefur hann kýlt niður andstæðinga sína í töpum gegn t.d. Mike Pyle og Kelvin Gastelum. Story er einn af fáum bardagamönnum sem er duglegur að koma með skrokkhögg og það hefur oft gert mönnum erfitt fyrir eins og sást gegn Dustin Hazelett. Ef Story hittir með einni af sínum villtu sveiflum gæti það markað endalok bardagans.

rick-story-ufc-167-highlights
Rick Story hafði betur gegn Brian Ebersole í nóvember 2013.

Bardaginn gegn Thiago Alves er sennilega besta frammistaða hans á ferlinum en Alves er einn af hættulegustu sparkboxurunum í veltivigtinni. Story óð í hann og reyndi að rífa hann niður í gólfið með góðum árangri og lét góða felluvörn Alves sér fátt um finnast. Hann hélt áfram að vaða áfram þrátt fyrir að fá góð högg frá Alves og sigraði eftir dómaraákvörðun.

Rick Story er án nokkurs vafa sterkasti andstæðingur Gunnars til þessa. Þessi setning hljómar kunnuglega enda fær Gunnar ávallt erfiðari og erfiðari andstæðing með hverjum sigrinum. Það verður gífurlega áhugavert að sjá hvernig Gunnar mun höndla pressuna sem Rick Story mun setja á hann en eflaust er Gunnar með eitt og annað í pokahorninu fyrir bardagann.

Bardaginn fer fram þann 4. október í Erickson Globe Arena í Stokkhólmi og verður aðalbardagi kvöldsins.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular