spot_img
Monday, December 23, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentHver er þessi Santiago Ponzinibbio?

Hver er þessi Santiago Ponzinibbio?

Eins og kom fram í morgun mun Gunnar Nelson mæta Argentínumanninum Santiago Ponzinibbio í Skotlandi í júlí. En hvaða maður er þetta?

Santiago Ponzinibbio er þrítugur Argentínumaður sem býr og æfir í Flórída í Bandaríkjunum. Þar æfir hann hjá American Top Team ásamt mörgum af bestu bardagamönnum heims á borð við Joanna Jedrzejczyk, Junior dos Santos, Amanda Nunes, Tyron Woodley, Jorge Masvidal, Thiago Alves og fleirum.

Ponzinibbio byrjaði 13 ára að æfa sparkbox eftir að hafa séð einn sparkbox tíma heima í Argentínu. Hann var mikið í íþróttum sem krakki en sparkboxið fangaði athygli hans strax.

Eftir 18 sigra og eitt tap komst hann í The Ultimate Fighter: Brazil 2. Þar gekk honum afar vel, vann fjóra bardaga og komst alla leið í úrslit en gat því miður ekki keppt í úrslitunum þar sem hann hafði brotið á sér höndina í undanúrslitaviðureigninni.

Hann fékk engu að síður samning við UFC og byrjaði á að tapa fyrir Ryan LaFlare sem Gunnar átti eitt sinn að mæta. Hann sigraði sína næstu tvo bardaga áður en hann tapaði fyrir Lorenz Larkin en hefur síðan þá unnið fjóra bardaga í röð. Þar á meðal eru rothögg gegn Court McGee og Andreas Ståhl en hvorugur hafði verið kláraður áður en þeir mættu Ponzinibbio. Einn af sigrunum fjórum kom gegn Zak Cummings sem Gunnar hefur einnig sigrað.

UFC Glasgow poster

Þess má geta að LaFlare er í dag í 12. sæti styrkleikalistans og var Larkin á topp 10 áður en hann hélt yfir í Bellator. Bæði töpin hans í UFC hafa því komið gegn sterkum andstæðingum.

Núna er Ponzinibbio í 13. sæti styrkleikalistans í veltivigtinni og hefur óskað eftir bardaga gegn einhverjum á topp 10. Það fær hann gegn Gunnari og ætti það að verða afar áhugaverð viðureign.

Þó Ponzinibbio sé helst þekktastur fyrir hæfileika sína standandi er hann samt svart belti í brasilísku jiu-jitsu með sex sigra eftir uppgjafartök. Þá er hann með 13 sigra eftir rothögg og hefur klárað 13 bardaga í 1. lotu. Hann er því nokkuð góður að klára bardaga sína rétt eins og Gunnar.

Ponzinibbio fléttar inn fellur hér og þar en kýs helst að halda bardaganum standandi. Þar er hann aggressívur og heldur hann góðri pressu. Flétturnar hans eru hraðar og hnitmiðaðar og er hægra lágsparkið hans öflugt sem hann notar til að skera búrið.

Ponzinibbio er góður íþróttamaður og er ansi góður í vasanum þar sem hann velur höggin vel. Felluvörnin hans er aðeins 60% en Ponzinibbio hefur verið að bæta hana og náð að halda sér að mestu standandi í síðustu bardögum sínum. Ponzinibbio er þremur sentimetrum hærri en Gunnar og með tveggja sentimetra lengri faðm en annars erum við ekki að tala um neitt ógnvænlega stóran andstæðing.

Gælunafnið hans er Gente Boa sem þýðist sem fínn gæji (e. nice guy). Hann er það svo sannarlega ekki í búrinu og en virkar hinn viðkunnalegasti utan búrsins.

Bardaginn verður aðalbardaginn á UFC bardagakvöldinu í Skotlandi þann 16. júlí. Bardagakvöldið fer fram í The SSE Hydro höllinni í Glasgow.

https://www.youtube.com/watch?v=bOqtZC5kEHQ

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular