spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaHver er þessi Zak Cummings?

Hver er þessi Zak Cummings?

zak cummings

Eins og við greindum frá í gær meiddist andstæðingur Gunnars Nelson, Ryan LaFlare, og getur ekki keppt þann 19. júlí í Dublin. Í hans stað kemur Bandaríkjamaðurinn Zak Cummings en hver er þessi maður?

Zak Cummings er 29 ára glímumaður með mikla reynslu. Hann er 183 cm á hæð og er með bardagaskorið 17-3. Hann var mjög mikið í íþróttum á sínum yngri árum og æfði hafnabolta, amerískan fótbolta og körfubolta auk þess sem hann æfði glímu. Á endanum ákvað hann að einblína bara á glímuna.

Eftir að glímuferlinum lauk ákvað hann að prófa að æfa MMA til að halda sér í formi. Hann fékk óvænt boð um bardaga og ákvað að taka því þar sem hann sigraði eftir aðeins 41 sekúndu. Eftir það gat hann ekki hætt að hugsa um MMA.

Eftir 6-0 sem áhugamaður tók hann skrefið að atvinnumennsku. Á fyrsta árinu sínu sem atvinnumaður tók hann átta bardaga og sigraði þá alla. Hann fékk ekki alltaf langan tíma til að undirbúa sig fyrir bardagana en ef liðsfélagi hans meiddist fyrir bardaga steig hann upp og tók bardagann í staðinn.

Zak-Cummings
Zak Cummings komst í TUF í 7. tilraun.

Áður en hann komst í UFC barðist hann víðsvegar um Bandaríkin og þar á meðal í Strikeforce bardagsamtökunum. Hann hefur aðeins tapað þrisvar á ferlinum en tvö af þessum töpum hafa komið gegn núverandi UFC bardagamönnum. Hans fyrsta tap kom gegn Tim Kennedy en sá er í 6. sæti á styrkleikalista UFC í millivigtinni, þyngdarflokkinum fyrir ofan Gunnar og Cummings. Þriðja og síðasta tapið hans til þessa var gegn Ryan Jimmo en Jimmo berst í léttþungavigt UFC í dag.

Á þessum tíma hafði hann nóg á sinni könnu þar sem hann var í fullu námi meðfram bardagaferlinum, vann í hlutastarfi á sjúkrahúsi auk þess sem hann vann sem dyravörður á skemmtistað á nóttunni.

Hans aðal markmið var alltaf að komast í UFC. Ein leiðin til að komast í UFC er að komast í raunveruleikaþáttinn The Ultimate Fighter. Zak Cummings komst í TUF í sjöundu tilraun þegar hann var meðlimur í 17. seríu þáttarins. Í seríunni sigraði hann bardagann um að komast í TUF húsið eftir rothögg á fyrstu 10 sekúndum bardagans. Það fór ekki mikið fyrir honum í seríunni og var hvorki með læti né dónaskap við aðra bardagamenn. Hann tapaði næsta bardaga sínum í 16-manna úrslitum og barðist ekki aftur í þáttunum. Töpin í TUF fara ekki á bardagaskorið þar sem bardagarnir eru sagðir sýningarbardagar.

Zak-Cummings
Cummings hengir Ben Alloway með D’arce hengingu.

Í þáttunum var ekki margt sem benti til þess að Cummings ætti eftir að gera mikið í UFC. Hann fékk þó tækifæri á að berjast gegn Bryan Alloway þar sem hann sigraði eftir uppgjafartak (D’arce choke) í fyrstu lotu. Cummings átti að berjast við Alberto Mina á TUF China: Finale bardagakvöldinu fyrr á þessu ári en Zummings var átta pundum yfir veltivigtartakmarkinu og kaus Mina að berjast ekki við hann.

Hann barðist síðast gegn Yan Cabral fyrr í þessum mánuði. Stuðullinn á sigri Cummings var hár þar sem Cabral þykir verulega fær BJJ-maður og var ósigraður í þokkabót. Cummings gerði sér lítið fyrir og sigraði Cabral örugglega eftir einróma dómaraákvörðun.

Cummings er jafn á öllum vígstöðum bardagans þó glíman sé hans helsti styrkleiki. Hann er með 89% felluvörn í UFC og hefur sjálfur náð fimm af sex af sínum fellum. Af 17 sigrum hans hafa níu komið eftir uppgjafartök, fjórir eftir rothögg og fjórir eftir dómaraákvörðun. Hann hefur aldrei verið rotaður á ferlinum en hefur einu sinni tapað eftir uppgjafartak og tvisvar eftir dómaraákvörðun. Cummings er örvhentur og berst því úr svo kallaðri „southpaw“ fótastöðu, þ.e. með hægri fótinn fram.

Cummings þykir virkilega viðkunnalegur náungi og hefur lagt gríðarlega hart að sér til að komast þangað þar sem hann er í dag. Þó Cummings sé ekki eins hátt skrifaður á styrkleikalista UFC og Ryan LaFlare þá er hann engu að síður verðugur andstæðingur sem enginn skal vanmeta.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

1 COMMENT

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular