Wednesday, April 17, 2024
HomeErlentHver var svo stóra tilkynningin frá Conor McGregor?

Hver var svo stóra tilkynningin frá Conor McGregor?

Conor McGregor UFC 205Conor McGregor varð í gær tvöfaldur meistari í UFC eftir sigur á Eddie Alvarez. Fyrir bardagann var Conor búinn að lofa stórri tilkynningu eftir bardagann.

Búist var við að Conor McGregor myndi koma með þessa stóru tilkynningu í viðtalinu við Joe Rogan strax eftir bardagann. Það gerði hann hins vegar ekki en viðtalið var eftirminnilegt engu að síður.

Á blaðamannafundinum eftir bardagann sagði hann hins vegar margt sem þykir ansi áhugavert.

„Það eru nokkrar bombur sem mig langaði að segja frá en var ekki viss. Ein tilkynning, ég er að verða pabbi á næsta ári. Ég er að skíta á mig, neita því ekki. Ég veit ekki hvernig ég á að taka því. Þetta er að hafa mikil áhrif á mig þar sem ég veit ekki hvort ég vilji koma með barn inn í þetta allt. Ég vil ekki vera þessi stjarna (e. celebrity). Ég hata það allt og vil ekki að fjölskylda mín sé þannig,“ sagði Conor.

„Ég ætla að eignast þetta barn, taka mér smá tíma og sjá hvernig mér líður þá.“

Conor hefur lengi talað um að eiga hlutabréf í UFC og þá sérstaklega eftir að bardagasamtökin voru seld fyrir 4,2 milljarða dollara til WME-IMG. Conor segist ekki enn hafa sest niður með nýju eigendunum til að ræða framtíðina. Hann vill eiga þennan fund áður en hann ákveður framhaldið.

„Þeir þurfa að koma og tala við mig. Enginn hefur talað við mig eftir söluna um viðskipti okkar. Þeir hafa heilsað mér og svona en ég verðskulda eitthvað. Hver á fyrirtækið núna? Það eru stjörnur eins og Conan O’Brien sem eiga hlut í fyrirtækinu. Hvar er minn hlutur? Hvar eru mín hlutabréf?“

Tveir af stærstu stjórnendunum, Ari Emmanuel og Patrick Whitesell voru í Madison Square Garden í gær og verður áhugavert að sjá hvert framhaldið verður.

„Ég er með bæði beltin, fullt af peningum og litla fjölskyldu á leiðinni. Ef þið viljið að ég haldi áfram að gera það sem ég er að gera þá þurfum við að ræða saman. En ég vil hlut í fyrirtækinu. Ég vil fá það sem ég á skilið, það sem ég hef unnið fyrir.“

Conor fer greinilega ekki í felur með það sem hann vill. UFC 205 gekk gríðarlega vel en UFC seldi miða fyrir 17,7 milljónir dollara (nýtt met í UFC og í MSG) og bætti „Pay per view“ metið.

Conor vill þar af leiðandi stærri hluta af kökunni. „Ég veit hvers virði ég er og nú á ég fjölskyldu með barn á leiðinni. Ég þarf að fá það sem er réttilega mitt ef þið viljið að ég komi aftur.“

Conor vildi ekkert gefa upp hvaða bardagi væri næstur hjá honum en það er ljóst að margir möguleikar eru fyrir hendi. Khabib Nurmagomedov átti stórkostlega frammistöðu gegn Michael Johnson í gær og það gerði Tony Ferguson einnig gegn Rafael dos Anjos fyrir viku síðan.

Conor McGregor mun þó taka sér smá hvíld núna og ræða við eigendur UFC áður en hann heldur áfram að berjast. Hér að neðan má sjá blaðamannafundinn hans Conor McGregor.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular