Friday, April 19, 2024
HomeErlentHvað segja erlendu sérfræðingarnir um bardaga Gunnars og Tumenov?

Hvað segja erlendu sérfræðingarnir um bardaga Gunnars og Tumenov?

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Helstu MMA síður erlendis spá nú í spilin fyrir bardaga Gunnars Nelson og Albert Tumenov sem fram fer á sunnudagskvöld. Við rýndum aðeins í spá erlendu sérfræðinganna og flestir virðast þeir hallast að sigri Tumenov.

Samkvæmt veðbönkum erlendis er Rússinn sigurstranglegri þó ekki muni miklu á stuðlunum. Stuðullinn er að meðaltali +150 á Gunnar en -170 á Tumenov. Kíkjum aðeins á spárnar.

MMAMania.com  (Jesse “Nostradumbass” Holland)

Jesse Holland ber nafn með rentu í þessu tilfelli en hann er einn spekinga vefsíðunnar MMAMania.com og spáir í spilin fyrir bardaga Gunnars í Hollandi. Holland byrjar á því að gagnrýna fellurnar hjá Gunnari og finnst honum Gunnar ekki berjast af nægilega mikilli áræðni eða árásargirni. Hins vegar bendir hann einnig á að í tuttugu bardögum hefur Tumenov ekki klárað einn bardaga með uppgjafartaki og að þetta reynsluleysi í jörðinni geti komið honum í koll gegn Gunnari.

Spá: Þrátt fyrir gagnrýnina spáir hann Gunnari sigri með uppgjafartaki.

Bloody Elbow.com  (Connor Ruebusch og Zane Simon)

Bæði Ruebusch og Simon eru hrifnir af Tumenov og telja hann sigurstranglegri. Ruebusch gagnrýnir nálgun Gunnars sem „Mixed Martial Artist“ og bendir á að MMA snúist fyrst og fremst um að vinna lotur. Að skora stig sé ekki til staðar hjá Gunnari og það háir honum. Það að hann sé „Martial Artist“ meðal íþróttamanna sé einfaldlega ekki góð nálgun til að vinna MMA bardaga og að það sé ótrúlegt hve vel honum hafi gengið þrátt fyrir þetta. Á sama tíma sé Tumenov einn sá besti í fléttum í veltivigtinni.

Spá: Þeir telja að Albert Tumenov sigri með rothöggi.

Bleacher Report (Patrick Wyman)

Patrick Wyman telur að þetta sé áhugaverðasti bardagi kvöldsins. Að hans mati er stýllinn hans Tumenov kryptónítið hans Gunnars. Tumenov er fínpússaðri standandi og með stærra vopnabúr. Að auki hefur hann getuna til að halda bardaganum standandi. Það mun ekki veita á gott fyrir Gunnar að bardaginn muni að mestu leyti fara fram standandi segir Wyman. Tumenov sé með það góðar gagnárásir að hann muni hitta í Gunnar í hvert sinn sem hann stekkur inn. Að auki vinnur Tumenov á hraða sem Gunnar mun ekki ráða við og á hann þar við fjölda högga á mínútu.

Spá: Tumenov sigra eftir dómaraákvörðun eftir góðan bardaga.

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

MMAJunkie.com (9 sérfræðingar MMA Junkie)

Sex af níu sérfræðingum MMA Junkie spá Tumenov sigri en áhugavert er að sjá að lesendur telja Gunnar sigurstranglegri, eða 54%

Spá: 66% sérfræðinga MMA Junkie spá Tumenov sigri

Sherdog.com (Connor Ruebusch)

Að mati Sherdog hefur Gunnar Nelson ekkert þróast eftir tapið gegn Rick Story. Þeir segja að Gunnar eigi erfitt með að aðlagast breyttum aðstæðum og koma upp með plan B ef upphaflega leikáætlunin er ekki að virka. Ruebusch er þeirrar skoðunar að vopnabúr Gunnars standandi sé afar takmarkað og miðist aðeins við eitt högg – beina hægri. Þá veltur hann því fyrir sér hvort trú hans á gólfglímu sinni sé sú sama eftir tapið gegn Maia.

Spá: Tumenov er auðvelt val þar sem Gunnar hefur ekki sýnt neitt nýtt síðan hann tapaði fyrir Story. Tumenov eftir dómaraákvörðun.

UFC.com (Dan Downes)

Downes er þeirrar skoðunar að Gunnar muni lenda í vandræðum með að finna fjarlægðina og að hann muni lenda í klandri með boxið sitt gegn Tumenov. Þá telur Downes ekki líklegt að Gunnar nái fellunni.

Spá: Albert Tumenov sigrar með því að nota boxið sitt.

FightNetwork.com (Cody Saftic)

Saftic bendir á að Gunnar sé með fínar fellur en að hann virðist eiga erfitt með að halda andstæðingum sínum niðri. Máli sínu til stuðnings bendir hann á bardagann gegn Rick Story þar sem Gunnar náði fellunni ítrekað en Story tókst að standa upp um leið í hvert sinn. Saftic vill meina að það sé lykillinn að sigri hjá Gunnari, að ná bardaganum í jörðina og halda honum þar. Hann veðjar hins vegar á að Tumenov sigri.

Spá: Albert Tumenov sigrar eftir dómaraúrskurð

Guttormur Árni Ársælsson
Guttormur Árni Ársælsson
-Pistlahöfundur -Fjólublátt belti í BJJ -Lýsi UFC á Viaplay þegar Pétur hefur eitthvað merkilegra að gera
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular