spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentHvers konar refsingu gæti Khabib fengið?

Hvers konar refsingu gæti Khabib fengið?

Khabib Nurmagomedov lét öllum illum látum eftir sigur sinn á Conor McGregor um helgina. Khabib stökk yfir búrið og réðst á hornamann Conor en upp frá því urðu fáránleg hópslagsmál.

Ljóst er að Khabib Nurmagomedov mun fá einhverja refsingu fyrir hegðun sína. Bardaginn fór fram í Las Vegas í Nevada og er íþróttasamband Nevada fylkis (NAC) með málið á sínu borði.

Strax á laugardagskvöldið hafði NAC horft á upptökur af atvikinu og tók þá ákvörðun að halda uppgefnum launum Khabib frá UFC 229 (2 milljónir dollara) á meðan Conor hefur fengið greitt. Inn í þessum tölum er þó ekki Pay Per View bónusinn og það geta báðir bardagamenn fengið frá UFC óháð NAC.

Þetta er því miður ekki í fyrsta sinn sem slagsmál brjótast út eftir bardaga þar sem NAC þarf að refsa mönnum. Þeir Jon Jones og Daniel Cormier slógust á blaðamannafundi í Las Vegas fyrir bardaga þeirra á UFC 178 í september 2014. Hvorugur var settur í bann en báðir fengu sekt frá NAC.

Mike Tyson fékk stóra sekt og bann fyrir að bíta í eyrað á Evander Holyfield þegar þeir mættust í Las Vegas sem er talsvert verra en slagsmálin um helgina. Boxleyfi Tyson í Nevada var fellt úr gildi í 12 mánuði (ekki bara bann) og þurfti hann að sækja aftur um keppnisleyfi frá NAC 12 mánuðum síðar. Tyson fékk keppnisleyfi í Nevada aftur í októbr 1998. Tyson fékk auk þess þriggja milljón dollara sekt (10% af 30 milljón dollara launum Tyson fyrir bardagann).

Þegar þeir Conor og Nate Diaz köstuðu flöskum í hvorn annan á blaðamannafundi fyrir UFC 202 fengu þeir báðir sekt. Hvorugur fékk bann en Conor fékk 150.000 dollara sekt (5% af launum hans frá bardaganum) og Nate 50.000 dollara sekt (2,5% af launum hans frá bardaganum). Báðir fengu 50 klukkustunda samfélagsskyldu en Conor áfrýjaði og fékk 15.000 dollara sekt í staðinn og 25 klukkustunda samfélagsskyldu.

Við höfum áður séð svona hópslagsmál í MMA en í Strikeforce sáum við hópslagsmál brjótast út eftir sigur Jake Shields á Dan Henderson í Nashville í Tennessee. „The Nashville brawl“ eins og það hefur verið kallað var í beinni útsendingu á CBS sjónvarpsrásinni og svartur blettur í sögu MMA. Þegar Jake Shields var í viðtali í búrinu eftir sigurinn tróð Jason ‘Mayhem’ Miller sér í viðtalið og krafðist þess að fá endurat gegn Shields. Hnefar flugu fljótt á loft frá Miller, Nick Diaz, Nate Diaz, Gilbert Melendez og Jake Shields.

Íþróttasambandið í Tennessee sektaði alla um 5.000 til 7.500 dollara og þriggja mánaða keppnisbann. Ef þeir hefðu svo mikið sem reynt að áfrýja hefði sektin hækkað í 20.000 dollara og níu mánaða bann. Allir samþykktu bannið sem þótti ansi stutt en um er að ræða annað fylki heldur en Nevada.

Telja má líklegt að Khabib fá 6-12 mánaða bann eftir framgöngu hans um helgina. Þá mun hann fá sekt sem verður sennilega í kringum 10% af uppgefnum launum hans frá bardagakvöldinu eða um 200.000 dollarar. UFC gæti svipt hann titlinum ef hann fær langt bann en mun sennilega henda fram einu bráðabirgðarbelti ef bannið verður einungis 6 mánuðir. Svo er spurning hvort þetta mál muni hafa áhrif á vegabréfsáritun Khabib og liðsfélaga hans í Bandaríkjunum.

Sjálfur ríkisstjórinn í Nevada var viðstaddur UFC 229 um helgina og þurfti að flýja höllina þegar lætin byrjuðu. NAC mun væntanlega fá pressu frá ríkisstjóranum til að taka hart á málinu.

Þess má geta að íþróttasambandið í New York, NYSAC, gat ekki refsað Conor fyrir rútuárásina hans í apríl þar sem hann var ekki „licensed fighter“ á UFC 223 í apríl. Hann var hvorki hornamaður né bardagamaður og hafði því NYSAC ekkert vald til að refsa honum. Lagakerfið í New York sá hins vegar um það.

Bardagaleyfið skiptir öllu þegar kemur að refsingu íþróttasambandi fylkjanna. Þegar þeir Nate Diaz og Khabib fóru í slagsmál á WSOF viðburði í ágúst 2015 fengu hvorugir refsingu þar sem þeir voru ekki „licensed fighters“ á viðburðinum.

https://www.youtube.com/watch?v=y9TydSjurMo

Heimild: MMA Mania

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular