spot_img
Sunday, November 24, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaInga Birna: Ólýsanleg tilfinning að fá svarta beltið

Inga Birna: Ólýsanleg tilfinning að fá svarta beltið

Inga Birna, Bjarki Þór, Gunnar og Magnús.

Inga Birna Ársælsdóttir fékk á dögunum svarta beltið í brasilísku jiu-jitsu. Hún var þar með fyrsta íslenska konan til að fá svarta beltið.

20 Íslendingar hafa fengið svarta beltið í brasilísku jiu-jitsu. Inga Birna er eins og áður segir fyrsta íslenska konan sem fær svarta beltið en hún er 27 ára gömul og byrjaði að æfa BJJ í september 2011.

„Þegar ég byrjaði að æfa var það fjarlægt að fá svarta beltið en ég sá þetta alltaf fyrir mér sem markmið alveg frá byrjun og fann það innra með mér að þetta væri áfangi sem mig langaði að ná. En hvenær það yrði vissi ég auðvitað ekki og grunaði ekki heldur að ég yrði fyrsta íslenska konan til að fá svarta beltið sem er auðvitað þvílíkur heiður,“ segir Inga

„Óháð beltum eða öðru slíku þá fann ég það frá fyrstu æfingu að þetta væri íþrótt sem mig langaði til að stunda eins lengi og ég mögulega gæti. Félagsskapurinn og hreyfingarnar er það sem heillar mig upp úr skónum alla daga.“

Inga Birna fékk svarta beltið frá Gunnari Nelson en sama dag fengu þeir Bjarki Þór Pálsson og Magnús Ingi Ingvarsson einnig svarta beltið í gráðun hjá Reykjavík MMA. Góður fjöldi var samankominn í Reykjavík MMA þegar gráðunin fór fram og var Ingu aðeins farið að gruna að hún gæti fengið svarta beltið.

„Ég vissi að það var möguleiki á því að ég myndi fá beltið og ég vissi að einhver svört belti yrðu afhent en var samt alls ekki viss. Ég glímdi við Gunna vikunni áður og mér fannst hann vera aðeins að meta mig nokkurn veginn en hann kommentaði ekkert og var frekar hljóður svo ég var alveg blanc og gerði ekki ráð fyrir neinu,“ segir Inga og hlær.

„Mér fannst alveg innilega fallegt að þegar ég spjallaði svo við hann eftir á að þá nefndi hann að hann hefði alveg vitað fyrirfram áður en við glímdum að hann ætlaði að afhenda mér beltið. Hitt hefði bara verið mikið skemmtilegra þar sem það var svolítið síðan við glímdum síðast og ég er alveg innilega sammála því. Fannst alveg frábært að halda svo spennunni og óvissunni.“

„Í gráðuninni var ég farin að pæla aðeins í því þegar ég fékk einhver komment þegar fólk var að mæta og líka hversu margar stelpur komu og svona. En ég var samt ekki alveg viss eins og kannski sást það þegar ég fékk beltið klökknaði ég mjög og margar ólýsanlegar tilfinningar komu upp.“

Frá vinstri: Margrét Ýr, Inga Birna og Gunnhildur.

Inga Birna hefur nokkrum sinnum farið erlendis að keppa en hefur ekki keppt eins mikið erlendis undanfarið ár. Nú stefnir hún á að keppa aftur á erlendum vettvangi og þá í flokki svartbeltinga sem verður ný áskorun fyrir Ingu.

„Ég tók mér smá frí frá keppnum síðasta árið vegna persónulegra aðstæðna en ég finn að ég er orðin mjög spennt að prófa að keppa erlendis í svartbeltingaflokki. Finnst það frekar kúl og ég hlakka til að fara inn í það á gleðinni og ögra mér þar í þeim ótrúlega flotta hópi kvenna.“

inga birna
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson

Inga Birna tók einn MMA bardaga á Evrópumótinu í MMA árið 2015 þar sem hún tapaði eftir dómaraákvörðun. Síðan þá hefur hún ekkert keppt í MMA en hvað var það við glímuna sem heillaði meira en MMA?

„Í rauninni var glíman alltaf aðal ástríðan mín og fann ég það helst á því að allar aukaæfingarnar mínar fóru alltaf í glímuna. Mér fannst MMA skemmtilegt og var fókuseruð á það um tíma en það er bara eitthvað við glímuna sem heillar mig svo innilega mikið. Hreyfingarnar, sjá tæknina smella rétt, endalaus ný tækni sem er auðvitað í MMA líka, en mér finnst alveg nóg að einbeita mér að öllu sem glíman hefur upp á að bjóða og þarf ekki fyrir mína parta að bæta inn höggum og spörkum.“

„Svo var annar punktur sem spilaði smá inn líka en það voru færri þá sem voru að einbeita sér alfarið að glímunni og var mikill fókus á MMA svo það tók mig smá tíma að hlusta á hjartað og skipta alveg yfir en ég sé alls ekki eftir þeirri ákvörðun. Ég finn hvað það er rétt ákvörðun að setja fulla stefnu og drifkraft í glímuna.“

Færri stelpur æfa brasilískt jiu-jitsu hér á landi heldur en strákar. Þó íþróttin henti vel fyrir stelpur eru strákarnir enn í stórum meirihluta á æfingum og mótum hér heima sem og erlendis. En hvernig er best að hvetja stelpur til að æfa BJJ?

„Það helsta er að vera duglegar að heyrast og halda tengslanetinu á milli okkar sem erum nú þegar að æfa af fullum krafti. Hvort sem það er innan félaga eða á milli þeirra þar sem við erum ennþá í miklum minnihluta og mikilvægt fyrir okkur að halda sterkum tengslum svo við getum bætt okkur hraðar saman. Því það er auðvitað sérstaklega mikilvægt fyrir konur að glíma við aðrar konur til að bæta sig.“

Inga hefur líka verið dugleg að ferðast erlendis til að æfa og segir að það sé mikilvægur þáttur í að skapa tengsl. „Það er alltaf gaman að æfa á nýjum stað og mynda ný tengsl í nýjum félögum. Veita hlýlegt viðmót og styðja við bakið á hver annarri í æfingum og keppnum eins og við höfum verið að gera nú þegar en það er alltaf fallegt og gott að hafa það bakvið eyrað. Svo er það bara að hvetja vinkonur og aðrar konur til að prófa og aðeins að ýta ofan af því að íþróttin sé meira fyrir karlmenn eða eitthvað því um líkt þar sem það er alls ekki raunin.“

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular