spot_img
Monday, December 23, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaIngibjörg Helga: Var viss um að ég hefði unnið

Ingibjörg Helga: Var viss um að ég hefði unnið

Mynd: Jordan Curran.

Ingibjörg Helga var eini Íslendingurinn sem keppti á Evrópumótinu í MMA í ár. Ingibjörg barðist sína fyrstu MMA bardaga á mótinu en datt út í undanúrslitum í gær. Þar tapaði hún eftir klofna dómaraákvörðun en niðurstaðan kom mörgum á óvart.

Ingibjörg Helga æfir hjá Tý en hún fékk tvo bardaga á mótinu. Í fyrri bardaganum sigraði hún hina finnsku Inka Räty eftir dómaraákvörðun en mætti svo hinni ítölsku Ilaria Norcia í gær. Bardaginn var frekar jafn en á endanum var það Norcia sem sigraði eftir klofna dómaraákvörðun.

„Ég var viss um að ég hefði unnið tvær lotur og hún eina. Mér leið allan tímann eins og ég væri með stjórnina og hefði valdið meiri skaða í bardaganum en ég hefði getað gert betur og sótt meira,“ segir Ingibjörg um undanúrslitabardagann.

„Ég horfði á seinni bardagann um leið og ég kom upp á hótelherbergið til að læra af mistökunum. En þegar ég horfði á hann aftur fannst mér það sama – að ég hefði unnið og margir hérna úti og heima sammála mér. Ég byrjaði bardagann vel með þungum fléttum og stjórnaði búrinu vel. Í annarri lotu náði hún að svara fléttunum mínum betur, en náðum báðar inn góðum höggum og lotan frekar jöfn. Þriðja lotan byrjaði frekar jafnt, hún clinchaði við mig en ég tók svo stjórnina í clinchinu og seinustu mínútuna var ég með stjórn á henni og hélt henni upp við búrið þar sem ég gaf henni hnéspörk í lærin og sló hana þungum höggum. Mig langaði að hnjáa hana í andlitið en það má bara ekki hjá IMMAF. Ég var ánægð með að ná að snúa clinchinu mér í hag því þessi stelpa er með mikla glímureynslu og þekkt fyrir guilatine choke, auk þess er hún búin með 10 MMA bardaga.“

Það vakti athygli að Ingibjörg var skælbrosandi þegar hún gekk í búrið og brosti lengi vel á meðan bardaganum stóð. „Þetta er það skemmtilegasta sem ég hef gert. Mér leið ótrúlega vel inni í búrinu, þarna finnst mér best að vera og ég hlakka til að bæta mig og berjast betur á HM. Ég vissi reyndar ekki að ég hefði verið brosandi í bardaganum sjálfum fyrr en mér var bent á það í viðtali eftir bardagann.“

Ingibjörg hefur áður keppt í boxi og karate og er meðal annars Íslandsmeistari í báðum greinum. Ingibjörg verður þrítug á árinu og hefur lengi verið viðloðin MMA. En hvers vegna ákvað hún núna að keppa í MMA? „Ég hef haft það á stefnunni lengi en er búin að vera að eiga við mikil meiðsli seinustu ár og ekki getað sparkað né glímt neitt í fimm ár. Þess vegna fór ég í boxið á meðan en stefnan var alltaf að fara í búrið.“

Áhugamannamótin sem IMMAF (alþjóðlega MMA sambandið) halda er frábær vettvangur til að safna sér reynslu og hafa margir Íslendingar keppt á mótunum. Bætt er á hinn fræga reynslubanka á mótunum enda fær bardagafólkið að berjast (sem er ekki sjálfgefið) og þar af leiðandi frábæra reynslu.

„Ég lærði [af þessu móti] að ég er með betra wrestling en ég bjóst við og get því sparkað meira og wrestlað við þessar stelpur. Ég þarf líka að vera meira aggressive og sækja meira, nota spörkin og passa mig á því að dominata bardagann. Ég mun líka keppa í þyngdarflokkinum fyrir neðan næst, en ég var nýbúin að þyngja mig slatta fyrir Íslandsmeistaramótið í boxi og var því í þyngdarflokknum fyrir ofan mig og vel undir vigt þessa þrjá daga sem ég var vigtuð inn. Ég nefbrotnaði líka í æfingaferlinu fyrir bardagana og þurfti því að passa mig meira en vanalega og var því aðeins smeykari við að sækja. En ég verð bara að sætta mig við 3. sætið.“

IMMAF heldur eitt mót á ári í hverri álfu og svo að lokum Heimsmeistaramót í nóvember. Líkt og undanfarin ár fer Heimsmeistaramótið fram í Barein en í fyrra náði Björn Lúkas Haraldsson silfri í sínum flokki eftir frábæra frammistöðu. Ingibjörg stefnir næst á að keppa á Heimsmeistaramótinu í ár.

„Ég steini á að fara á Heimsmeistaramótið í nóvember og stefni á atvinnumennsku eftir það. Markmiðið er að verða best í heiminum,“ segir Ingibjörg að lokum.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular