0

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC Fight Night: Cerrone vs. Edwards

UFC er með lítið bardagakvöld í Singapúr á morgun. Í aðalbardaganum mætast þeir Leon Edwards og Donald Cerrone en hér eru nokkrar ástæður til að horfa á bardagana á morgun.

Leon Edwards upp goggunarröðina?

Leon Edwards hefur verið að kalla eftir því að fá stóra bardaga og nú fær hann loksins ósk sína uppfyllta. Edwards hefur verið að láta aðeins í sér heyra að undanförnu þrátt fyrir að það sé honum ekki eðlislægt en gerir það bara til að vekja á sér athygli. Hann er þó 7-2 á ferli sínum í UFC og hefur unnið fimm bardaga í röð. Hann fær stóra tækifærið á morgun og ætti bardaginn að segja okkur mikið um báða. Edwards getur tekið stórt stökk upp metorðastigann með sínum stærsta sigri á ferlinum á meðan Cerrone getur sýnt að hann er ekki dauður úr öllum æðum. Cerrone tapaði þremur bardögum í röð áður en hann komst aftur á sigurbraut með sigri á Yancy Medeiros í febrúar. Hann er þó alltaf vís til að þagga niður í ungum og kokhraustum bardagamönnum með klassískum sigrum. Spurning þó hvort hinn 35 ára gamli Cerrone geti gert það í enn eitt skiptið eða hvort Edwards feti í fótspor Darren Till og hasli sér völl sem bardagamaður sem vert er að fylgjast með.

Tyson Pedro ennþá á uppleið

Í næstsíðasta bardaga dagsins mætast þeir Tyson Pedro og Ovince St. Preux. Tyson Pedro er vonarstjarna í léttþungavigtinni en þó kom smá bakslag í fyrra þegar hann tapaði fyrir Ilir Latifi. Pedro hefur klárað alla sigra sína og er aðeins 26 ára gamall sem er auðvitað enginn aldur í léttþungavigtinni. Ovince St. Preux gæti reynst erfið prófraun fyrir Pedro á þessari stundu en hugsanlega hefur hann bætt sig mikið frá tapinu gegn Latifi. Þetta ætti þó að verða nokkuð skemmtilegur bardagi hjá stórum strákum.

Upprennandi bardagamenn fá tækifæri

Eins og er gjarnan með þessi minni bardagakvöld má oft sjá efnilega bardagamenn fá sín fyrstu tækifæri í UFC. Hinn rússneski Petr Yan er fyrrum bantamvigtarmeistari ACB og berst sinn fyrsta bardaga í UFC á morgun. Yan þykir feikilega spennandi viðbót við bantamvigtina en hann mætir Teruto Ishihara og ætti það að verða áhugavert. Þá mun hinn 23 ára Jake Matthews berjast sinn 9. bardaga í UFC en Matthews er hægt og rólega að verða ansi góður bardagamaður. Þá er Naoki Inoue áhugaverður bardagamaður en hann er bara 21 árs gamall og 11-0 sem atvinnumaður en sjö af þessum bardögum hefur hann klárað með uppgjafartaki.

Frábær tími

Líkt og er oft með bardagakvöldin í Asíu eru bardagarnir á góðum tíma í Evrópu. Fyrsti bardagi dagsins hefst kl. 8:30 um morguninn á íslenskum tíma en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl. 12 í hádeginu. Fátt betra en að byrja morguninn á smá UFC áhorfi í beinni!

Pétur Marinó Jónsson

Comments

comments

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.