Islam Makhachev hefur þurft að draga sig úr bardaganum gegn Rafael dos Anjos um næstu helgi. Verið er að leita af nýjum andstæðingi fyrir dos Anjos.
Islam Makhachev fékk sýkingu og þurfti því að draga sig úr bardaganum með aðeins 6 daga fyrirvara. Upphaflega átti bardaginn að fara fram í síðasta mánuði á UFC 254 en bardaginn var færður eftir að dos Anjos reyndist jákvæður fyrir COVID-19.
Rafael Dos Anjos sem er fyrrum léttvigtarmeistari er að koma til baka í léttvigtina eftir að hafa fært sig upp um flokk í veltivigt. Hann stóð sig þokkalega í veltivigtinni með fjóra sigra og fjögur töp allt á móti topp 15 bardagamönnum. Enginn af þeim náði hins vegar að klára dos Anjos.
Dos Anjos hefur óskað eftir bardaga við Michael Chandler sem er nýbúinn að skrifa undir samning við UFC. Chandler átti góðu gengi að fagna í Bellator en samdi við UFC fyrr á þessu ári. Hans síðasti bardagi í Bellator var rothögg gegn fyrrum léttvigtarmeistaranum Benson Henderson.
Bardaginn átti að vera aðalbardagi kvöldsins á UFC bardagakvöldinu laugardaginn 14. nóvember. UFC þarf því að finna andstæðing sem fyrst en fá stór nöfn eru á bardagakvöldinu sem gætu endað í aðalbardaga kvöldsins.
Nokkrir bardagamenn hafa sett nafn sitt í pottinn og óskað eftir að koma í stað Makhachev. Þar má helst nefna Carlos Diego Ferreira og Luis Pena.
Shit I’ll fight RDA
— Luis Antonio Pena (@violentbobross) November 9, 2020