spot_img
Saturday, November 23, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentÍslandsvinurinn James Gallagher með frumraun sína í Bellator í júlí

Íslandsvinurinn James Gallagher með frumraun sína í Bellator í júlí

james gallagher
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

James Gallagher mun berjast sinn fyrsta bardaga í Bellator þann 16. júlí. Hinn írski Gallagher er aðeins 19 ára gamall en nú þegar með mikla reynslu að baki og mikla pressu.

James Gallagher hefur sigrað alla þrjá atvinnubardaga sína eftir langan feril sem áhugamaður. Alla bardagana þrjá hefur hann klárað í 1. lotu með uppgjafartaki. James fékk í kjölfarið samning við Bellator bardagasamtökin og berst á Bellator kvöldinu í London þann 16. júlí.

James æfir hjá SBG í Dublin undir handleiðslu John Kavanagh og hefur margsinnis komið hingað til lands við æfingar í Mjölni. James hefur lengi verið sagður einn sá efnilegasti í Evrópu og er með mikla reynslu þrátt fyrir ungan aldur. Áður en James tók skrefið í atvinnumennskuna háði hann 18 bardaga sem áhugamaður.

James Gallagher tók sinn fyrsta áhugamannabardaga aðeins 13 ára gamall og hefur hann alltaf verið að berjast gegn mun eldri andstæðingum. Þannig kynntist hann John Kavanagh. 13 ára Gallagher átti þá að mæta 21 árs mótherja en John Kavanagh átti að vera einn af dómurunum. Kavanagh neitaði að dæma bardagann þar sem honum fannst fáranlegt að 13 ára strákur væri að mæta 21 árs manni.

James endaði á að sigra bardagann og var Kavanagh hrifinn af frammistöðu hans. John Kavanagh bauð honum í kjölfarið að æfa hjá SBG í Dublin sem hann þáði. James bjó þó ekki í Dublin og þurfti því að ferðast með rútu frá Strabane til Dublin í hvert sinn sem hann fór að æfa í Dublin. Rútuferðirnar tóku um tvo tíma og var hann oft að koma seint heim á kvöldin. Rútuferðirnar tóku sinn toll á skólagöngu hans og ákvað hann því að hætta í skólanum til að einbeita sér að MMA.

Lengi vel bjó James hjá John Kavanagh í Dublin á meðan hann dvaldi þar við æfingar en nú er hann kominn með sína eigin íbúð. Auk þess að vera í SBG liðinu er James meðlimur í KHK MMA liðinu í Barein en John Kavanagh er þjálfarinn þar líka. Liðið er styrkt af prinsinum í Barein, Khalid Bin Hamad al Khalifa.  James hefur fengið góðan stuðning frá prinsinum sem hefur gert honum kleift að fá sér eigin íbúð í Dublin.

Samningur hans við Bellator er líka sagður mjög góður og er hann því í sjaldgæfri stöðu í MMA heiminum – 19 ára, 3-0, með íbúð, með bíl og skortir eiginlega ekkert þrátt fyrir að hafa afrekað ekki neitt ennþá.

„Bellator hafa verið mér góðir. Ég er að fá góðan pening þar svo ég er ánægður. Þetta er einn af stærstu samningunum í bardagasamtökunum og ég gæti ekki beðið um meira,“ sagði James við MMA Junkie.

Með þessu öllu fylgir þó aukin pressa. Auk þess er James ekki hræddur við að setja aukna pressu á sig með því að pota í stóru birnina í Bellator eins og fjaðurvigtarmeistarann Daniel Strauss.

Hann setur upp sjálfumglaða mynd af sér á samfélagsmiðlum sem er gjörólík þeim ljúfa dreng sem hann er í eigin persónu. Þetta er sennilega eitt af því sem hefur komið honum í svo góða stöðu svona snemma.

Undir handleiðslu John Kavanagh og reglulegar æfingar með til að mynda Conor McGregor og Gunnari Nelson hefur James allt til að komast mjög langt í MMA. Þrátt fyrir að ímynd hans út á við minni á Conor McGregor er bardagastíllinn hans talsvert líkari okkar manni, Gunnari Nelson. Hann er einstaklega flinkur á jörðinni enda sigrað flesta bardagana sína með uppgjafartaki.

Þann 16. júlí mætir hann Mike Cutting í Bellator á aðalhluta bardagakvöldsins. Mörg augu eiga eftir að beinast að honum það kvöld og engin tilviljun að Bellator setur hann á góðan stað á bardagakvöldinu í London. Bellator virðist binda miklar vonir við James og verður gaman að sjá hvort hann standi sig á stóra prófinu í Bellator.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular