Saturday, April 20, 2024
HomeErlentIsrael Adesanya: Paulo Costa er vitlaus, ég er klár

Israel Adesanya: Paulo Costa er vitlaus, ég er klár

Israel Adesanya var ekki í neinum vandræðum með Paulo Costa á UFC 253 í nótt. Adesanya kláraði Costa í 2. lotu og átti Costa aldrei séns.

Adesanya kláraði Costa með tæknilegu rothöggi í 2. lotu. Costa náði lítið að ógna Adesanya.

„Ég er 10 skrefum á undan. Ég sagði ykkur það, ég er enginn boxpúði. Hann hefur bara barist við einhverja boxpúða, gaura sem standa þarna og reyna að verjast, þeir leyfðu honum bara að raða inn höggunum. Þeir [Costa og hans lið] vildu hafa mig þarna grafkyrran og svo hann gæti kýlt mig,“ sagði Adesanya á blaðamannafundinum eftir bardagann.

Adesanya er núna 20-0 í MMA en hann hefur einnig unnið 75 bardaga í sparkboxi og fimm í hnefaleikum. Sigurinn í gær var því hans 100. í bardagaíþróttum.

„Ég er ekki heimskur. Hann er vitlaus, ég er klár. Þetta var minn hundraðasti sigur í bardagaíþróttum. Ég er ekkert ungabarn, ég hef verið lengi í þessu en ég er ennþá ferskur.“

Í ágúst litaði Adesanya á sér hárið bleikt sem vakti athygli og gerði Paulo Costa grín að Adesanya. Adesanya rakaði hárið af skömmu síðar eftir ráðleggingu frá pabba hans.

„Pabbi sagði að ég myndi blinda Costa með stungunni minni. Þegar hann verður hálfblindur og eineigður gæti hann enn séð hausinn minn útaf bleika hárinu og miðað því á bleika skýið. Það er rétt, ég hlustaði á pabba minn, hann er klár maður.“

Þetta var önnur titilvörn Adesanya en hann hefur unnið alla níu bardaga sína í UFC. Adesanya vill næst mæta Jared Cannonier ef honum tekst að sigra Robert Whittaker í október.

„Ég held að Jared klári Robert Whittaker og ég hlakka til að mæta honum. Ég held að Jared afgreiði þetta og ég mun halda með honum [gegn Whittaker]. En ef Robert Whittaker vinnur og vill rotast í þriðja sinn þá getum við látið það verða að veruleika.“

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular