Tuesday, May 21, 2024
HomeErlentIsrael Adesanya: Þetta var eins og í bíómynd

Israel Adesanya: Þetta var eins og í bíómynd

Israel Adesanya sigraði Kelvin Gastelum í gær í mögnuðum bardaga. Adesanya segir bardagann hafa verið magnaða reynslu og þurfti hann að hafa mikið fyrir sigrinum.

Bardaginn var gríðarlega spennandi og var allt undir fyrir fimmtu og síðustu lotuna. Þar hafði Adesanya betur og var ansi nálægt því að klára Gastelum. Gastelum hafði lotuna á undan vankað Adesanya en Adesanya tókst að snúa taflinu aftur sér í vil. Þegar fjórða lota kláraðist hlustaði Adesanya vel á hornið sitt sem lagði ráðin fyrir síðustu lotuna. Það var lítið um tæknileg ráð og var hornið þess í stað að hvetja hann áfram fyrir fimmtu lotuna.

Adesanya sagði við sjálfan sig „meðtaktu myrkrið“ fyrir fimmtu lotuna og vissi að hann gæti farið í gegnum mjög erfiða lotu. Adesanya kom í lotuna af miklum krafti og var nálægt því að klára Gastelum.

„Ég veit af hverju menn brotna og ég veit af hverju menn missa kjark. Margir verða kraftlausir andlega þegar þeir eru á þessum tímapunkti. Þeir vilja hætta. Ég hef gert þetta við marga áður. Ég sá að hann var að reyna að gera það við mig en hann gat það ekki. Þar með fór hann að missa kjarkinn,“ sagði Adesanya.

„Þetta var eins og í bíómynd. Að komast í gegnum erfiðleika í upphafi en svo í lok bardagans vanka ég hann, ég veit ekki hve oft ég vankaði hann í 5. lotu og ég var bara að reyna að klára bardagann.“

„Ég hætti ekki. Ég er sterkur andlega, ég er skotheldur í hausnum og smá klikkaður í hausnum. Ég veit að þú ert ekki að fara að brjóta mig af því ég hef verið með tíu menn á eftir mér á æfingu en ekki brotnað. Ef þeir geta ekki brotið mig getur einn maður ekki gert það. Hann er samt mjög harður maður.“

„Ég þurfti að grafa djúpt og náði nýjum hæðum andlega. Ég hef verið þarna á æfingum áður en ég náði nýjum hæðum í þessu myrkri.“

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular