James Krause mætir Trevin Giles á UFC 247 í nótt. Krause kemur inn með rúmum sólarhrings fyrirvara í þyngdarflokki fyrir ofan sig.
Trevin Giles átti að mæta Antonio Arroyo í einum af upphitunarbardögunum á UFC 247. Arroyo náði vigt í gær en var fluttur upp á spítala eftir vigtunina og sagður ófær um að berjast.
Bardagakvöldið fer fram í Houson á heimaslóðum Giles en sem betur fer fyrir hann fær hann andstæðing í tæka tíð. James Krause ákvað að stíga inn í gær og var hann 183,5 pund þegar hann var vigtaður fyrir 185 punda millivigtarbardagann.
Krause berst í veltivigt þessa dagana en hefur áður barist í léttvigt. Krause hefur unnið sex bardaga í röð og berst nú sinn fyrsta bardaga í millivigt á ferlinum.
Krause átti ekki að berjast á bardagakvöldinu og var því ekki að undirbúa sig fyrir bardaga þegar hann fékk kallið. Krause var í Houston til að vera í horninu hjá Youssef Zalal sem berst í fyrsta bardaga kvöldsins.
Giles hefur tapað tveimur bardögum í röð og vonast væntanlega eftir sigri á heimavelli í nótt.
Þeir Jon Jones og Dominick Reyes mætast í aðalbardaga kvöldsins á UFC 247.