Jan Blachiwicz mætir Israel Adesanya á UFC 259 annað kvöld. Þetta verður fyrsta titilvörn Blachowicz síðan hann tók titilinn í léttþungavigt í fyrra.
Israel Adesanya er ríkjandi meistari í millivigt og fer upp í léttþungavigt í fyrsta sinn. Mikið hefur verið rætt um stærð Adesanya þar sem hann gæti verið um 10 kg léttari en Blachowicz í bardaganum. Blachowicz er þó ekki mikið að spá í stærð Adesanya þegar í búrið er komið.
„Ég æfi með minni gaurum sem eru hraðari, mönnum sem eru jafn stórir og ég og mönnum í þungavigt. Ég vil vera tilbúinn í allt, þú verður að vera tilbúinn fyrir allt,“ sagði Blachowicz við MMA Fighting.
Þetta verður fyrsti bardagi Adesanya í léttþungavigt og er Blachowicz handviss um að Adesanya muni finna muninn á millivigt og léttþungavigt. „Þetta verður öðruvísi fyrir hann. Það er allt annað að berjast í 205 pundum. Krafturinn er allt annar, hraðinn er annar. Þó að þú æfir með mönnum í léttþungavigt og þungavigt þá er það bara sparr. Það er allt annað að berjast og hann mun finna það. Léttþungavigt er minn flokkur, ég hef verið þarna allan minn feril.“
„Ég er með þennan pólska kraft og hann mun finna það. Eftir fyrsta sparkið eða höggið veit hann hvað ég er að tala um. Sjáiði til.“
Blachowicz hefur verið að vinna síðustu bardaga sína með rothöggi en hann er einnig svart belti í brasilísku jiu-jitsu. „Ef ég fæ færi á að taka hann niður þá mun ég gera það. Ég mun reyna að ná honum í uppgjafartak eða koma með þung högg í gólfinu.“