Jon Jones var aftur gestur í The MMA Hour hjá Ariel Helwani. Jones talaði um meiðsli Daniel Cormier og vist sína í gæsluvarðhaldi á dögunum.
Fyrrum léttþungavigtarmeistarinn Jon Jones þurfti að dúsa í gæsluvarðhaldi í síðustu viku eftir brot á skilorði sínu. „Ég get ekki hætt að hugsa um kærastann minn sem ég yfirgaf í fangaklefanum. Við áttum yndislegar stundir saman á þremur stuttum dögum. Þannig að ég er smá leiður. Ég skrifaði honum bréf en hann hefur ekki enn svarað. Ég vona bara að hann hafi fengið bréfið,“ sagði Jon Jones í háði um vist sína gæsluvarðhaldinu.
Hann varð þó ögn alvarlegri í kjölfarið og lýsti sinni upplifun betur. „Þetta var tækifæri til að verða aftur auðmjúkur. Þessi reynsla fékk mig til að hugsa um þá hluti sem ég hef unnið fyrir. Heimilið mitt, rúmdýnan, fallega unnustan mín og börnin mín. Þetta fékk mig til að hugsa um hversu lánsamur ég er og er ég þakklátari nú en áður. Frelsið og frægðin, ég tók því sem gefnu.“
„Ég hugsaði með mér, ‘þú ert í klefa að éta núðlur, versta mat í heimi, læstur inni í 23 tíma’. Þvílíkur munur á lifnaðarhætti. Ég man þegar einhver gaf mér blað og penna og hve þakklátur ég var fyrir svo einfaldan hlut.“
„Þetta var ekki að ástæðulausu. Guð er með plan fyrir mig. Kannski þarf ég að vera auðmjúkari. Ég veit ekki. En ég er pottþétt auðmjúkari.“
Jones talaði einnig um Daniel Cormier og vandaði honum ekki kveðjurnar frekar en fyrri daginn. „Daniel er heigull sem mun aldrei vinna mig.“
Viðtalið við Jon Jones má hlusta á hér að neðan í heild sinni.