Jon Jones tjáði sig um lyfjaprófið sem hann féll á í gær á Twitter. Jones heldur því fram að hann myndi aldrei nokkurn tímann nota stera.
Jon Jones féll á lyfjaprófi sem tekið var daginn fyrir bardaga hans gegn Daniel Cormier á UFC 214 en í lyfjaprófinu fannst anabolíski sterinn Turinabol. Þetta er í annað sinn sem hann fellur á lyfjaprófi en í fyrra féll hann á lyfjaprófi skömmu fyrir UFC 200. Þá fundust svo kallaðir estrógen hindrar en þeir eru bannaðir þar sem þeir eru oftast notaðir til að hjálpa líkamanum að jafna sig eftir steranotkun. Málsvörn Jones náði þó að sýna fram á að efnin hefðu komið úr rispillu sem hann tók.
Jones á yfir höfði sér allt að fjögurra ára bann ef hann finnst sekur af steranotkun enda væri þetta hans annað brot. Jones og hans málsvörn heldur því fram að hann hafi innbyrt menguð fæðubótarefni en Jones stóðst tvö óvænt lyfjapróf í aðdraganda bardagans. Hann féll svo á eina lyfjaprófinu sem hann vissi nákvæmlega hvenær færi fram.
Eftir að aðdáandi bað hann um að viðurkenna bara brot sín sagði Jones að hann myndi aldrei taka inn stera.
Dude the truth is I would never do steroids, I put that on my children and I put that on my Heavenly Father https://t.co/i8EEbrQU5x
— Jon Bones Jones (@JonnyBones) September 14, 2017
Sigur Jones á Daniel Cormier var í vikunni dæmdur ógildur og Jones sviptur titlinum sem hann vann á UFC 214.