Jon Jones er frjáls ferða sinna eftir þriggja daga gæsluvarðhald. Jones var sekur um að hafa rofið skilorð sitt á dögunum með því að fremja minniháttar umferðarbrot.
„Ef ég sé þig hér aftur mun það ekki enda vel,“ sagði dómarinn við Jon Jones er réttarhöldunum lauk í dag.
Síðastliðinn fimmtudag var Jon Jones stöðvaður af lögreglunni og sakaður um spyrnukeppni og fjögur önnur minniháttar brot. Jones fékk 18 mánaða skilorðsbundinn dóm í september eftir að hafa valdið þriggja bíla árekstri og flúið vettvang. Með umferðarbrotunum í síðustu viku rauf hann skilorðið og var því færður í gæsluvarðhald.
Í dag fóru réttarhöldin yfir málinu fram. Jones játaði að hafa rofið skilorðið fyrir framan dómara í dag og voru ný skilyrði sett á skilorð hans. Jones samþykkti að fara í reiðimeðferð og aftur í ökukennslu til að bæta ökuhæfni hans. Að auki var Jones dæmdur til 60 klukkustunda samfélagsþjónustu sem hann þarf að klára á næstu þremur mánuðum. Jones þarf einnig samþykki skilorðsfulltrúa síns í hvert sinn sem hann ætlar að keyra.
Saksóknarinn reyndi að fá útgöngubann á Jones á milli 22:00 og 4:00 en dómarinn hafnaði því. Þetta mál hefur því engin áhrif á bardaga Jon Jones og Daniel Cormier á UFC 197 þann 23. apríl.
Jon Jones þarf þó að fara afar varlega á næstu mánuðum eins og lokaorð dómarans gefa til kynna ef ekki á illa að fara í hans málum. Jones hefur notið aðstoðar vinar síns á síðustu vikum sem hefur ekið honum um en einstaka sinnum þurft að keyra sjálfur eins og kom fram í The MMA Hour á mánudaginn.