spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentJorge Masvidal: Ben Askren slapp auðveldlega

Jorge Masvidal: Ben Askren slapp auðveldlega

Jorge Masvidal á fljótasta rothögg í sögu UFC. Masvidal rotaði Ben Askren í gær eftir aðeins fimm sekúndur.

Jorge Masvidal tók fljúgandi hné í átt að Ben Askren og smellhitti með þeim afleiðingum að Askren rotaðist strax. Dómarinn steig inn á milli og stöðvaði bardagann eftir fimm sekúndur og er það fljótasta rothögg í sögu UFC. Hægt hefði verið að stöðva bardagann fyrr, svo fljótt var rothöggið. Masvidal fylgdi hnésparkinu eftir með tveimur höggum í gólfinu áður en dómarinn náði að stíga inn á milli.

Þessi tvö auka högg hjá Masvidal í gólfinu voru óþarfi enda var Askren rotaður á þessum tíma. Masvidal er þó ekki á sama máli og segir að þau hafi verið nauðsynleg.

„Aukahöggin voru mjög nauðsynleg. Dómarinn var ekki búinn stíga á milli og stöðva bardagann. Mitt starf er að kýla þangað til dómarinn stöðvar bardagann. Þeir sem segja [að ég hefði ekki átt að fylgja eftir með fleiri höggum] ættu kannski ekki að horfa á MMA og horfa á fótbolta. Hann fékk þessi aukahögg því ég hélt að hann myndi standa upp,“ sagði Masvidal eftir bardagann.

Eftir tvo sannfærandi sigra í röð vill Masvidal fá titilbardaga. Meistarinn Kamaru Usman verður frá þangað til í nóvember en Masvidal vill ekki fá neitt annað en titilbardaga núna.

„Ég gæti barist á morgun. Ég er tilbúinn. Þeir segja að ég hafi verið í bardaga en ég var ekki í bardaga. Bardagi stendur yfirleitt lengur yfir en fimm sekúndur. Þannig að ég var ekki í bardaga. Engin meiðsli, ég er tilbúinn að berjast á morgun.“

Það var mikill hiti í Masvidal fyrir bardagann og rígur á milli hans og Askren. Masvidal var ekki tilbúinn að grafa stríðsöxina eftir bardagann og sagði að þetta væri ekki búið milli hans og Askren.

„Þetta er ekki búið fyrir Ben. Hann þarf ennþá að eiga við mig. Ef ég sé hann í Whole Foods mun ég löðrunga hann því mér líkar illa við hann.“

Masvidal sá fyrir sér að hann myndi lúskra á Askren yfir 14 mínútur og klára hann seint í bardaganum. Þess í stað kláraði hann bardagann eftir örfáar sekúndur. „Á vissan hátt slapp hann auðveldlega.“

Askren var fluttur upp á spítala strax eftir bardagann en Dana White sagði eftir bardagakvöldið að hann væri í lagi. Þrátt fyrir slæmt tap var stutt í húmorinn hjá Askren.

Blaðamannafundinn með Masvidal má sjá hér að neðan.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular