spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaJosé Aldo gegn Chad Mendes - Endurtekning eða tímamót?

José Aldo gegn Chad Mendes – Endurtekning eða tímamót?

Á laugardagskvöldið fer UFC 179 fram þar sem þeir José Aldo og Chad Mendes mætast í annað sinn. Aldo hefur ekki tapað síðan árið 2005 og því gæti bardaginn orðið sögulegur nái Mendes að gera hið ómögulega. Við förum yfir aðdragandann og þennan mikilvæga bardaga. 

Þegar UFC keypti WEC árið 2010 voru margir spenntir fyrir innkomu spennandi bardagakappa eins og Urijah Faber, Anthony Pettis, Ben Henderson og Dominick Cruz svo einhverjir séu nefndir. Sá sem var e.t.v mest spennandi var lítill tappi frá Brasilíu, nefndur José Aldo, sem gekk frá mönnum í búrinu eins og þeir hefðu móðgað móður hans. Þetta var ekki José Aldo sem sigraði Ricardo Lamas þægilega á stigum í febrúar. Þetta var José Aldo sem afgreiddi Cub Swanson á 8 sekúndum. Þetta var José Aldo sem tók titilinn auðveldlega frá Mike Brown og breytti lærinu á Faber í fjólubláa spægipylsu í fimm lotu niðurlægingu. Þessi José Aldo hefur ekki sést í dágóðan tíma.

aldo jung
Aldo gegn Jung

Með tímanum virðist Aldo hafa aðlagað stílinn sinn að minni áhættu og árásargirni. Í dag er Aldo jafn harður og hættulegur og hann hefur alltaf verið en hann er ekki eins árásargjarn og er þar af leiðandi ekki eins spennandi fyrir augað. Á móti Chan Sung Jung sýndi hann hvað hann er harður með því að stoppa Jung með spörkum þrátt fyrir að vera fótbrotinn. Á móti Edgar sýndi hann fram á tæknilega yfirburði og seiglu í erfiðum bardaga. Á móti Chad Mendes sýndi hann frábæra felluvörn og sýndi hvað hann er hættulegur öllum stundum með vel tímasettu hnésparki sem gerði út af við bardagann.

Ef tölurnar eru skoðaðar sést að það er munur á WEC-Aldo og UFC-Aldo. Hann hefur aðeins klárað tvo af sex andstæðingum sínum í UFC. Fyrsti andstæðingurinn sem hann kláraði var Chad Mendes en sá seinni Chan Sung-Jung. Síðarnefndi bardaginn var ákveðin óheppni hjá Jung þar sem öxlin hans fór úr lið í 4. lotu. Það verður samt ekki tekið frá Aldo að þar sá hann að Jung var meiddur og sýndi drápseðlið sitt og kláraði hann. Í þessum sex titilbardögum í UFC hefur hann verið samtals 122 mínútur í búrinu. Í WEC barðist hann átta bardaga og var hann ekki nema 61 mínútu í búrinu. Þar með var 25 mínútna slátrun á Urijah Faber. Það er eitthvað breytt við Aldo.

Fyrri sigurinn á Mendes var umdeildur. Í þeim bardaga var mikið gert úr því að Aldo greip í búrið stuttu fyrir rothöggið á Mendes til að halda sér uppi og að það hafi haft áhrif á niðurstöðuna. Nú fær Mendes tækifæri til að sanna að hann sé betri bardagamaðurinn.

chad-mendes-jose-aldo-fence-grab
Aldo grípur í búrið í fyrri bardaganum gegn Mendes.

 

Mendes er búinn að vinna sér inn tækifærið til að skora á Aldo aftur með því að sigra fimm andstæðinga í röð, þar með talið Clay Guida og Nik Lentz. Hann hefur litið mjög vel út, fyrir utan bardagann gegn Lentz sem hann vann þó á stigum en hann var víst hálfveikur í þeim bardaga.

Mendes-guida
Mendes afgreiðir Guida

Þessi bardagi núna um helgina ætti að svara spurningum um bæði Aldo og Mendes. Sigri Aldo sannfærandi þaggar hann niður í efasemdaröddum. Mendes verður þá brennimerktur sem náunginn sem getur unnið alla nema meistarann, eins og Junior dos Santos. Nái Mendes að þreyta hann og draga hann í gólfið gæti bardaginn markað tímamót með krýningu nýs meistara. Verði það raunin verða allir UFC meistarar Bandaríkjamenn, þ.e. þar til ákveðinn málglaður Íri kemst að.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular