Monday, May 27, 2024
HomeForsíðaBjarki Ómarsson: Hef engar tilfinningar í bardaga

Bjarki Ómarsson: Hef engar tilfinningar í bardaga

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Bjarki Ómarsson sigraði Percy Hess um síðustu helgi í AVMA bardagasamtökunum í Englandi. Bjarki var einn þriggja Mjölnismanna sem barðist á þessu kvöldi og stóðu þeir allir uppi sem sigurvegarar.

Bjarki (2-1) sigraði eftir að hann svæfði andstæðing sinn í lok fyrstu lotu með “rear naked choke” heningartaki. „Byrjunin var bara kickbox þar sem ég eiginlega lék mér að honum. Hann var ekki sterkur standandi og ég sá það um leið og bardaginn byrjaði. Ég held að hann hafi verið smá hræddur og sérstaklega eftir að náði mjög góðum vinstri króki á hann alveg í byrjun bardagans. Eftir á sagðist hann hafa verið vel vankaður eftir krókinn. Hann fór síðan í fellu sem ég hefði vel getað stoppað en ég náði taki utan um hálsinn á honum og ætlaði að reyna að klára þetta með guillotine hengingu en hann náði að slamma mér og þá missti ég henginguna. Hann byrjaði svo að kýla mig í gólfinu á fullu en ég náði að snúa stöðunni við og náði svo bakinu. Þegar ég var kominn með bakið náði ég að svæfa hann.“

Þetta var þriðji bardagi Bjarka en honum hefur aldrei liðið jafn vel í keppni. „Mér hefur aldrei liðið jafn vel fyrir bardaga eða inn í búrinu og þetta kvöld. Það var ekkert stress og ég var mjög rólegur. Þegar ég kom inn í búrið leið mér eiginlega eins og ég væri bara að fara á æfingu.“

Bjarki kveðst ekki hafa miklar tilfinningar í bardaga og tekur fyrir að MMA sé einhver útrás fyrir hann. „Maður hefur engar tilfinningar í bardaga, maður er ekkert reiður. Ef maður myndi lenda í götuslagsmálum þá væru alltaf tilfinningar í gangi eins og reiði eða ótti. Þarna í búrinu ertu ekki með neinar tilfinningar og ef gæji kýlir mig í bardaga þá verð ég ekkert reiður, reiði væri bara truflandi. Þegar ég er í búrinu er ég ekki að reyna að meiða neinn, ég er ekki einu sinni að pæla í því. Ég er bara að reyna og vinna, alveg eins og lið reyna að vinna fótboltaleik.“

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Þrátt fyrir að hafa lent undir í gólfinu var Bjarki viss um að hann myndi ná að snúa stöðunni við og klára hann. „Ég var samt ekki öruggur um að ég væri með henginguna þegar ég læsti henni, það var svo lítill tími eftir, bara einhverjar 5-10 sekúndur. Ég sá hann aldrei tappa þar sem hann sofnaði en ég heyrði bara í dómaranum segja mér að sleppa takinu og þá var þetta búið.“

Að sögn Bjarka óttaðist Percy Hess hann og sá Bjarki það. „Þegar ég hitti hann fyrir bardagann var hann svo brotinn, hann var hræddur við mig. Hann gekk ekki um með beint bak og kassann út heldur hálf boginn eins og hann væri bara smeykur. Hann var bara brotinn og ég sá það.“

Bjarki mun taka því rólegu í þessari viku og æfa smávægilega áður en hann fer aftur í sömu æfingarútinu í næstu viku. Það er nokkuð ljóst að Bjarki ætlar sér langt í íþróttinni og hefur hann alla burði til þess. „Þetta ævintýri er bara rétt að byrja, ég er með frábæra þjálfara og æfingafélaga sem ég vil þakka, og vil líka þakka fjölskyldu og vinum. Án þeirra kemst maður ekkert. Svo verð ég auðvitað að þakka Mjölni!“
Við þökkum Bjarka Ómarssyni kærlega fyrir viðtalið og bendum lesendum á að kíkja á Like síðu hans hér.
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular