Joseph Duffy fékk heilahristing aðeins nokkrum dögum fyrir bardaga sinn gegn Dustin Poirier. Samkvæmt læknisráði ákvað UFC að banna honum að keppa.
Fyrstu fréttir hermdu að Duffy hefði rotast á æfingu í Dublin fyrr í vikunni. Efasemdir spruttu upp um hvað í ósköpunum Duffy hefði verið að gera svona skömmu fyrir bardaga. Firas Zahabi, yfirþjálfari Tristar í Kanada, sagði í samtali við MMA Fighting að Duffy hefði rotast á laugardaginn.
Duffy hefur æft hjá Tristar um tíma og er venjan þar að taka síðustu „sparr“ æfinguna á laugardegi, viku fyrir bardagann. Því miður fyrir Duffy rotaðist hann á æfingunni og getur því ekki keppt nú á laugardaginn. Rothöggið var svo kallað „flash knockout“ þar sem fæturnir gefa sig skyndilega eftir þungt högg. Vika er ekki nógu langur tími til að jafna sig á rothöggi.
Í stað Duffy og Poirier verður aðalbardaginn á milli Paddy Holohan og Louis Smolka.